Fyrirhugað er að setja upp vindmyllur og sólarorkuver í Grímsey og gætu framkvæmdir hafist í byrjun sumars. Íbúar er spenntir fyrir verkefninu og vonast til þess að það leiði til fólksfjölgunar.

Fallorka á Akureyri annars verkefnið í samstarfi við Vistorku og Orkusetur með stuðningi úr Evrópuverkefninu SMARTrenew og Orkusjóði. Þetta verkefni er hluti af markmiði íslenska ríkisins og Akureyrarbæjar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og í nýrri orkustefnu um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050.

Í Grímsey eru íbúar alls 61. Þau búa við þá sérstöðu að hafa hvorki aðgang að hefðbundinni hitaveitu né landsneti rafmagns og kynda því með olíubrennslu og fá sitt rafmagn frá dísilrafstöðum sem ganga fyrir olíu. Heildarnotkun á olíu í Grímsey er um 400 þúsund lítrar á ári og áætluð losun vegna orkunotkunar um 1.000 tonn CO₂ á ári. Með fyrstu aðgerðum í orkuskiptum í Grímsey mun olíunotkun minnka um 20 þúsund lítra og draga úr losun gróðurhúslofttegunda um 50 tonn á ári.

Varmadælan var gagnrýnd

Guðrún Gísladóttir, útgerðarkona og íbúi í Grímsey líst rosalega vel á verkefnið. Hún flutti til Grímseyjar árið 1985 ásamt eiginmanni sínum Henning Jóhannessyni, þegar íbúar vorum um 120. Þau fengu sér varmadælu fyrir árið 2009 til að blása hita inn í húsið og Guðrún var ein þeirra sem var lagði til að prófa að setja upp vindmyllu í Grímsey fyrir tólf árum síðan.

„Varmadælan var gagnrýnd mikið og þá stungum við upp á því hvort það mætti ekki setja upp vindmyllu hérna. Það var enginn vilji frá Orkustofnun eða neinum. Þetta mátti alls ekki,“ segir Guðrún. „Við vorum með menn í vinnu og vorum kannski að nota áttahundruð til þúsund lítra af olíu á mánuði og kostnaðurinn var að sliga mann.“

Ýmislegt hefur nú þegar verið gert í Grímsey til að draga úr orkunotkun og þar með brennslu jarðefnaeldsneytis.
Fréttablaðið/Auðunn Níelsson

Íbúar gætu fengið sólarsellur á húsin

Ýmislegt hefur þegar verið gert í Grímsey til að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis eins og til dæmis bætt einangrun í þaki og gluggum sem dregur úr upphitunarþörf. Eins hefur lýsingu í ljósastaurum verið skipt út fyrir LED og mun Orkusetur bjóða heimilum upp á slíkar perur til uppsetningar.

Árið 1973 var byggð vindmylla á eyjunni og gerð tilraun til þess að nýta vindorku. Sú tilraun mistókst þar sem hún bilaði stuttu eftir að hún var byggð. Hægt er að sjá það sem eftir stendur af vindmyllunni uppi á hæð á suðvesturhluta eyjunnar.

„Það er alltaf vindur hérna og nú eru nýir og breyttir tímar. Mér finnst þetta frábær hugmynd. Það er misjafnt hvað fólki finnst, sumir segja þetta sjónmengun en þær verða aldrei margar vindmyllurnar hérna þannig að kostirnir eru talsvert fleiri ef þetta gengur,“ segir Guðrún.

Tvær vindmyllur munu framleiða samtals um 30 þúsund kWst á ári. Samið hefur verið við skoska framleiðendur sem framleiða smáar en mjög sterkar vindmyllur, enda skiptir veðurþol miklu máli. Einnig eru áform um að setja upp sólarorkuver við Múla sem gæti framleitt allt að 10.000 kWst á ári. Í framtíðinni verður möguleiki fyrir íbúa að setja upp sínar eigin sólarsellur á og við hús sín án kostnaðar.

Gamla vindmyllan í Grímsey.
Mynd: Akureyrarbær