Í síðustu viku var sett í loftið kolefnisspors reiknivél þar sem notendur geta athugað kolefnisspor sitt, hvernig sé hægt að minnka það og á sama tíma aðstoðað við rannsókn á sviði loftslagsbreytinga. Reiknivélin er útbúin á vegum umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands og samanstendur af þverfaglegu teymi búsettu á Íslandi, Finnlandi og Póllandi.

Helsta markmið reiknivélarinnar er að hjálpa fólki að átta sig á kolefnisspori sínu með því að sýna hvaða þættir vega mest og hvar tækifæri séu til að draga úr losun.

Hægt er að nálgast reiknivélina hér.

„Þetta er bæði reiknivél sem reiknar kolefnisspor einstaklings út frá lifnaðarháttum, ferðalögum, neyslu og orkunotkun,“ segir Áróra Árnadóttir nýdoktor við Háskóla Íslands sem tók þátt í þróun reiknivélarinnar. „Verkefnið styðst við niðurstöður frá ýmsum rannsóknum á sviði losunar.“

Þá er einnig verið að safna gögnum sem tengjast viðhorfi fólks til loftslagsbreytinga.

Kolefnislosun landa í tonnum.
Mynd/Journal of Cleaner production

„Ástæðan fyrir því að við höfum lagt í þessa gagnaöflun er að áður hefur verið sýnt fram á að íbúar ríkra landa á borð við Norðurlandaþjóðirnar eru með hlutfallslega hátt kolefnisspor þrátt fyrir miklar tækniframfarir og notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum,“ útskýrir Áróra.

„Við viljum meðal annars skoða hvort það sé einhver lifnaðarháttur hjá Norðurlandabúum sem er samþýðanlegur með að halda hlýnun undir 1,5 gráðum.“

Þegar lokið er að fylla inn í reiknivélina er hægt að sjá hvar notandi stendur í samanburði við umheiminn.

„Íslendingar eru með um það bil 10 tonn á meðan meðaltalið í heiminum er rúmlega 3,“ segir Áróra.