Fljótsdalshérað og Heilbrigðiseftirlit Austurlands hafa látið þau boð út ganga að ráðist verði í förgun ómerktra katta á Egilsstöðum og í Fellabæ frá 18. febrúar til 8. mars. Þessi áform hafa vakið heitar tilfinningar og mikla reiði sem fólk lætur ekki síst í ljós í athugasemdum á Facebook-síðu Fljótsdalshéraðs.

Eigendum skráðra og ormahreinsaðra katta er bent á að halda þeim innandyra á næturnar á meðan á átakinu stendur. Þá eru eigendur óskráðra katta og hunda hvattir til bæta úr því sem allra fyrst.

Samtökin Villikettir á Austurlandi telja víst að villiköttum á svæðinu verði fargað í snatri og þá jafnvel með ólöglegum aðferðum. Aðstoð þeirra og aðferðafræði hefur verið afþökkuð og óhætt að segja að tilfinningahitinn sé mikill og reiðin kraumi hjá dýravinum á svæðinu.

„Þeir fara í svona átak, eða hreinsun eins og þeir kalla þetta, á nokkurra ára fresti,“ segir Sonja Rut Rögnvaldsdóttir, forsvarsmaður Villikatta á Austurlandi, í samtali við Fréttablaðið og bætir við að sagan hafi sýnt þeim að átakið feli í raun í sér harkalega útrýmingu villikatta.

Villiköttum sem betur fer hafnað

Villikettir á Austurlandi hafa boðið fram aðstoð sína og aðferðafræði sem felst í því að fanga kettina, gelda, merkja og reyna að finna þeim heimili, en slíkt hefur verið afþakkað meðal annars með vísan í álit dýraeftirlitsmanns MAST í Austurumdæmi.

„Við höfum boðist til þess að taka þetta verkefni að okkur sveitarfélaginu að kostnaðarlausu og tilfinningarnar eru vissulega heitar,“ segir Sonja Rut. „Þetta er þó ekki aðeins tilfinningalegt mál fyrir okkur þar sem við sjáum í þessu hagræðingu fyrir allt sveitarfélagið, bæði fjárhagslega og ekki síður til þess að bæta ímynd þess sem er nú því miður svolítið löskuð,“ segir Sonja Rut sem óttast að sveitarfélagið muni nú bíða enn frekari álitshnekki.

Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður Matvælastofnunar í Austurumdæmi, segist í umsögn frá janúar í fyrra, uppfærðri 9. janúar á þessu ári, telja að samningur eins og sá sem Villikettir leggja til standist ekki lög um dýravelferð.

„Í slíkum samningi væri sveitarfélagi tæplega stætt á að leyfa aðra meðferð strokukatta og hálfvilltra katta en þá sem einmitt kveður á um í 2. mgr. 24. gr. Laganna, þ.e. a) að finna köttunum nýjan eiganda, b) selja þá gegn áföllnum kostnaði eða c) aflífa án bóta,“ skrifar Þorsteinn.

Í niðurlagi umsagnarinnar segir hann að Fljótsdalshérað hafi „sem betur fer“ hafnað samstarfi við Villiketti síðastliðinn vetur og bætir við að hann voni að úttekt hans hafi ráðið einhverju um það.“

Drepnir með gasi í áhaldahúsi

Sonja Rut gefur ekki mikið fyrir þennan málflutning og segir dýraeftirlitið sjálft ítrekað hafa farið á svig við lög og reglur. „Það er nú ekki langt síðan það komst upp að þeir hafa oftar en einu sinni gerst sekir um að brjóta lög og reglugerðir með því að aflífa ketti innan skilgreinds tímaramma.“

Þá segist hún þekkja dæmi um ólöglega aflífun á villtum köttum á svæðinu. „Þeir hafa verið að aflífa þá sjálfir niðri í áhaldahúsi með gasi, en ekki komið þeim til dýralæknis. Þetta komst síðast í fréttirnar 2017 og ég er alveg fullviss um að það var ekkert einsdæmi.“

Sonja Rut segist aðspurð ekki telja lausagöngu villikatta vera alvarlegt vandamál í Fljótsdalshéraði. „Við höfum ekki orðið vör við það. Við höfum brugðist við öllum ábendingum,“ segir hún og bendir á að frá því Villikettir tóku til starfa á Austurlandi fyrir ári síðan hafi 54 ómerktir kettir verið fangaðir á vegum félagsins á Fljótsdalshéraði.

„Þetta hefur verið sveitarfélaginu að kostnaðarlausu og þeim verið komið til dýralæknis í ófrjósemisaðgerð, örmerkingu, ormahreinsun og bólusetningu og þeim svo fundin ný heimili. Einungis sex af þessum köttum var sleppt út aftur en þeir munu auðvitað ekki fjölga sér frekar.“

Deilt um aðferð en ekki markmið

„Aðalmálið er að við erum með nákvæmlega sama markmið og sveitarfélagið,“ segir Sonja Rut. „Sem er að sporna við offjölgun villikattanna og við erum alveg hjartanlega sammála því að það þurfi að halda þeim í skefjum.

En við skiljum ekki að þeir skuli kjósa aðferðir sem greinilega eru mjög umdeildar og ómannúðlegar þegar þeim stendur annað til boða til þess að ná fram nákvæmlega sömu lausn.“

Sonja Rut segir Villiketti nú þegar vera í góðu samstarfi við fimm sveitarfélög á landinu. „Og það eru ekki mörg sveitarfélög sem taka þetta svona föstum tökum og það heyrir nú eiginlega fortíðinni til að gera svona rassíur og að dýraeftirlitsmenn séu að gera þetta og með þessum aðferðum.

Að ég tali nú ekki um að vera að aflífa kettina sjálfir í massavís. Þeir eiga að láta gera þetta hjá dýralækni og það getur vel verið að þeir ætli að gera það núna og ég vona það innilega.“

Sonja Rut segir þó sporin hræða. „Þeir hafa ekki gert það í fortíðinni og þess vegna er ímynd þeirra svolítið löskuð og margir dýraeigendur bera ekki mikið traust til dýraeftirlitsins eins og er.“

Sonja Rut segist ekki sjá fram á að kattavinir og yfirvöld finni ásættanlega lausn áður en átakið hefst á mánudaginn. „Þeir virðast ætla að halda sínu striki með því að framvísa umsögninni frá Þorsteini Bergssyni,“ segir Sonja Rut. „Við erum nú með þetta bréf til yfirlestrar hjá lögfræðingi eins og er vegna þess að þarna vísar hann sitt á hvað í lög sem eiga við um villt dýr eða dýr sem hafa alist upp hjá mönnum, bara eftir því hvað hentar.“