Agne Čičinskaitė, dóttir eiganda Íslenska rokkbarsins, segist hafa orðið harkalega vör við viðbrögð við frásögn Elínar Maríu Guðbjargardóttur um að starfsfólk staðarins, þar á meðal móðir hennar, hafi kennt Elínu Maríu og tveimur öðrum konum um áreitni drukkins viðskiptavinar á barnum um helgina.

Hún segist í sjokki yfir þessu og að ásakanirnar eigi ekki við rök að styðjast. Upptökur úr öryggismyndavélum staðfesti það. Sjálf segist hún búin að fara yfir upptökurnar og geti ekki séð að nokkuð hafi gerst.

Sjá einnig: Kvartaði yfir á­reitni: Sögð eins og „hóra“ og rekin út

„Við bjóðum fólki bara að koma hingað og skoða upptökurnar vegna þess að þarna er ekki farið með rétt mál og ljót meiðyrði látin falla um staðinn,“ segir Agne í samtali við Fréttablaðið. „Það er öllum velkomið að skoða upptökurnar.“

„Við fylgdumst með stelpunum frá því þær löbbuðu inn og þangað til þær voru beðnar um að fara út og það gerðist ekkert. Við erum þekkt fyrir að verja kúnnanna okkar og standa með þeim  og þetta kom okkur í opna skjöldu.“

Agne segir Elínu Maríu og vinkonu hennar hafa verið vísað á dyr vegna þess að þær hefðu verið með leiðindi og truflað menn sem voru að spila pool. „Þær voru bara með leiðindi og kvartandi allan tímann. Stemningin í kringum þær var leiðinleg þannig að þær voru beðnar kurteislega um að yfirgefa staðinn.“

Agne segir af og frá að tekið hafi verið á þeim, þeim ýtt eða að þær hafi verið „kallaðar hórur,“ eins og Elín María lýsir atburðum á Facebook og í samtali við Fréttablaðið.

„Þær byrjuðu ekkert að kvarta fyrr en við báðum þær um að fara út. Ein stelpa hafði verið slegin í rassinn en hún sagði ekki neitt og hélt bara áfram að spila og skemmta sér. Það kom enginn og kvartaði og ef það hefði verið gert þá hefðum við talað við strákana strax.“

Segja má að atburðalýsing Agne sé þveröfug miðað við frásögn Elínar Maríu sem stendur fast við sitt. Agne segir meðal annars útilokað að móðir hennar, sem vísaði konunum út, hafi getað tekið svo fast á Elínu Maríu að hún hafi fengið marblett.

„Hún snerti hana ekki einu sinni. Þetta er allt á upptöku og hún bara kom ekki við hana,“ segir hún. Elín María staðfesti við Fréttablaðið að mögulega hefði hún ekki fengið marblettinn þegar henni var gert að yfirgefa staðinn.

„Mig getur misminnt enda er ég mannleg en hvaðan marbletturinn kemur þá veit ég ekki. Ég sagði líka strax á Facebook að það væri ekki útilokað að mér skjátlaðist með þetta.“

Annað segir Elín María að hafi gerst eins og hún rakti í morgun og nokkur fjöldi fólks geti staðfest það.

Agne segir ekki útilokað að eigendur barsins leiti réttar síns. „Við erum bara að hugsa málið. Þetta er mjög alvarlegt og það fer svo gott orð af þessum stað þannig að ég er bara ennþá í sjokki. Ég er búin að vera titrandi í allan dag eftir að ég sá þetta í morgun.

Við höfum ekkert að fela. Ég stend fast á því og ég get lofað þér því að ef talað yrði við fastakúnnanna okkar myndu þeir allir styðja okkur.“