Þingheimur tók endurkomu Miðflokksþingmannanna Gunnars Braga Sveinssonar og Bergþórs Ólasonar misvel í morgun og þannig sagðist Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar, til dæmis þykja „heldur skuggsýnt yfir þingsalnum í dag.“

Sjá einnig: „Skuggsýnt yfir þingsal“ vegna endurkomu Miðflokksmanna

Kveðjurnar sem kjósendur hafa sent þingmönnunum á Facebook og Twitter í dag eru síðan enn kaldari og lítið er gefið fyrir útskýringar þeirra, afsökunarbeiðnir og réttlætingar fyrir því að þeir eru mættir aftur til starfa örfáum dögum eftir að jólaleyfi lauk.

„Orð Klausturþingmannanna voru ekki einungis „ósmekkleg“ eins og Bergþór reynir að sleppa hér með. Þau lýstu skoðunum og þó sérstaklega hugarfari þingmannanna sex,“ segir Illugi Jökulsson rithöfundur á Facebook og heldur áfram: „Spurningin er hvort þessir einstaklingar hafi eitthvert erindi á þing eftir að hugarfar þeirra liggur ljóst fyrir, sem og iðrunarleysi þeirra. Spurningin er líka hvort konur á þingi eigi að þurfa að vinna með manni sem ber þann hug til þeirra sem orð Bergþórs á Klaustri lýstu. Og raunar ekki bara konur, heldur þingmenn yfirleitt, tala nú ekki um kjósendur.“

Heiða B Heiðars, auglýsingastjóri Stundarinnar, skefur heldur ekkert utan af því: „Mér finnst ógeðfelld tilhugsun að fá þessa dúdda aftur á þing. Verulega ógeðfelld.“

Sigurður Hólm Gunnarsson, formaður Siðmenntar, er einnig stuttorður og skrifar: „Þeir koma alltaf aftur til byggða þessir jólasveinar.“

Björn Birgisson, nýbakaður ellilífeyrisþegi í Grindavík, tekur þá Gunnar Braga og Bergþór fyrir hvorn í sinni Facebook-færslunni og segir þetta um þann síðarnefnda:

„Hann skammast sín ekki meira en svo að honum finnst forsvaranlegt að á þingi sitji maður sem með afgerandi hætti hefur sýnt þjóðinni að hann er orðljótur ruddi og dóni. Honum finnst bara leiðinlegt að hafa komið upp um sjálfan sig.“

Rannveig Tenchi, stofnandi stuðningssíðunnar Takk Bára á Facebook er öskureið eins og fleiri: „Siðleysið er algjört, tímann frá Alþingi nýttu þeir eingöngu til þess að koma sökinni yfir á Báru! Að þeir skuli ekki bara skammast sín og hypja sig alfarið af Alþingi er óþolandi fyrir þjóðina!“

Og ekki er reiðin minni á Twitter þar sem kvikmyndagerðarmaðurinn og pistlahöfundurinn Hrafn Jónsson er í miklum ham: „Allir Klausturþingmennirnir hafa nú tilkynnt að þau muni setjast aftur á þing nokkurn veginn afleiðingalaust. Þau munu halda áfram að innheimta sitt þingfararkaup (þótt 2 séu ekki einu sinni í stjórnmálaflokki lengur) auk þeirra fríðinda & aukagreiðslna sem því fylgir. Skilvirkt.“

Elísabet Brynjarsdóttir, formaður Stúdentaráðs, er fullvantrúar á Twitter: „Þessir Klaustursþingmenn geta ekkert bara horfið í mánuð, beðið á meðan umfjöllun minnkar og mætt svo og reynt að stýra narratífinni. Ég bara trúi ekki að þeir komist upp með þetta.“ Grafíski hönnuðurinn Svala Hjörleifsdóttir talar síðan ekkert rósamál: „Megi þeir fokka sér. Allan daginn. Alla daga. Að eilífu. Amen.“

Hörður Ágústsson, kenndur við Macland, sendir þingmannatvíeykinu einnig tóninn á Twitter og misbýður réttlætingar endurkomunnar: „ahhhhh þarna er það! Sem engan særði.. merkingarlaust raus. Og auðvitað tikkað í „Áfengisráðgjafar“ boxið. Djöfull þoli ég ekki svona kjaftæði.“

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, lætur Miðflokksmennina fá það óþvegið á Facebook. „Þessi maður er búinn að taka sæti sitt á Alþingi aftur, ásamt félaga sínum sem gortaði af því að hafa mútað Sjálfstæðisflokknum með sendiherrastöðu, í skiptum fyrir gagnkvæmar mútur síðar. Undir þetta tók formaður þeirra, sem þótti ekki ástæða til að gefa Alþingi eða þjóðinni frí frá sér. Skömm þeirra er óendanleg, en við hin þurfum víst að sitja með þeim í þinginu þangað til þeir finna einhverja sómaglætu.“

Sagnfræðingurinn Gústaf Níelsson, bróðir Brynjars þingmanns Sjálfstæðisflokksins og sessunautar Bergþórs, fagnar endurkomu hans en getur vel hugsað sér varanlega fjarveru Gunnars Braga:

„Bergþór Ólason alþm. hefur tekið rétta ákvörðun og rökstyður hana ágætlega. Hann á auðvitað að sinna þeim verkum, sem hann var kjörinn til af kjósendum í Nv. kjördæmi. Hann er hvorki illmenni né óþokki. Nokkra slíka má þó finna innan veggja hins háa alþingis, sem ekki hafa lent í leynilegum og ólöglegum upptökum, sem dreift hefur verið til fjölmiðla í því skyni að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Öðru máli þykir mér gegna um Gunnar Braga Sveinsson, sem er fljótfær spjátrungur og montrass. Hann mætti alvarlega huga að afsögn.“