Mikil reiði er meðal hjúkrunarfræðinga vegna niðurstöðu gerðardóms og stefnir í flótta úr stéttinni á næstu árum. Þetta segja Inga Heinesen og Guðlaug Ásta Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingar á Sjúkrahúsinu á Akureyri, SAk. Auk þess að starfa á SAk eru þær í aukavinnu og hafa báðar íhugað það að breyta um starfsvettvang. Þá fylgjast þær vel með umræðunni innan stéttarinnar.

„Ég vissi alveg að ég yrði aldrei rík á því að starfa sem hjúkrunarfræðingur en maður bjóst samt við því að geta framfleytt sér á því,“ segir Guðlaug Ásta.

„Ef ég myndi hætta á vöktum gæti ég ekki lifað á dagvinnulaunum.“

Samkvæmt niðurstöðu gerðardóms sem var birt í byrjun mánaðarins skal ríkið veita 900 milljónum króna á ári til Landspítalans. Aðrar ríkisreknar heilbrigðisstofnanir fá 200 milljónir króna á ári sem deilist svo niður á þær í hlutfalli við fjölda stöðugilda á hverri stofnun. Þetta gildir út samningstímann til ársins 2023.

„Það segir í greinargerð gerðardóms að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar,“ segir Inga.

Óánægjan beinist ekki síst að því að fjármagnið er sett í hendur stofnananna. „Gerðardómurinn var skipaður til að ákvarða launaliðinn, niðurstaðan er að hjúkrunarfræðingar verða áfram allt að 20 prósentum lægra launaðir en aðrir starfsmenn ríkisins með sambærilega menntun.“

Ójöfn skipting fjár

Guðlaug segir fjármagninu skipt ójafnt. „65 prósent hjúkrunarfræðinga starfa á Landspítalanum, samt fær spítalinn 80 prósent af fjármagninu. Þar hafa hjúkrunarfræðingum boðist ýmis sérkjör, til dæmis Hekluverkefni og vaktaálagsauki. Það fjármagn sem Landspítala er úthlutað rétt dugir til að fjármagna þessi sérverkefni en þau taka aðeins til helmings þeirra hjúkrunarfræðinga sem starfa á Landspítalanum. Ég er ekki að sjá fram á að það litla fjármagn sem rennur til SAk verði til mikilla launahækkana.“

Þær segja mikla óánægju meðal hjúkrunarfræðinga, bæði meðal samstarfsfólks og einnig miðað við umræður á netinu. „Enginn sem ég hef talað við er sáttur við þessa niðurstöðu. Flestir eru í áfalli,“ segir Inga. Guðlaug telur að hjúkrunarfræðingar hafi verið blekktir. „Mér fannst félagið pressa á miðlunartillögu ríkisins. Árið 2015 fengum við meiri launahækkun gegnum gerðardóm heldur en ríkið var tilbúið að veita okkur. Í ljósi þess var mikil pressa á að samþykkja miðlunartillöguna.“

Einn af hverjum fimm hættir vegna launakjara

Þær eru ekki sáttar við aðgerðir ríkisins til þess að koma í veg fyrir skort á hjúkrunarfræðingum í starfi. „Lausn ríkisins virðist vera að fjöldaframleiða hjúkrunarfræðinga með því að bjóða upp á styttri námsleiðir. Þeim í alvörunni dettur ekki í hug að laga það sem fælir hjúkrunarfræðinga úr starfi. Einn af hverjum fimm hættir í starfi eftir fimm ár vegna launa, álags og starfsumhverfis.“

Nú geisar heimsfaraldur og horfur eru á djúpri efnahagslægð, aðspurðar hvort þetta sé rétti tíminn til að biðja um launahækkun segja þær það aldrei vera réttan tíma. „Það er aldrei rétti tíminn. Það er alltaf niðurlæging þegar jafn stór og mikilvæg kvennastétt er ekki jafn mikils metin og aðrir ríkisstarfsmenn,“ segir Guðlaug.

Inga bætir við að faraldurinn hafi einmitt leitt í ljós mikilvægi hjúkrunarfræðinga. „Hjúkrunarfræðingar sem voru komnir í önnur störf buðu fram sína krafta. Allra augu beindust að heilbrigðiskerfinu, þar stóðu hjúkrunarfræðingar vaktina og standa enn.“