Reiði hefur verið að byggjast upp í Beirút í kjöl­far sprengingarinnar í gær sem lagði stóran hluta borgarinnar í rúst. Minnst 135 létust og þúsundir slösuðust þegar eldur kom að gríðar­legu magni af ammóníum­nítrati sem geymt var á hafnar­svæði borgarinnar með þeim af­leiðingum að öflug sprenging varð.

Breska blaðið Guar­dian segir frá þessu.

Reiðin er ekki síst vegna þess að eftir­lits­aðilar höfðu marg­oft varað við því að efnið væri geymt við ó­tryggar að­stæður. Í frétt Guar­dian segir að að­eins sex mánuðir séu síðan eftir­lits­aðilar vöruðu við því að efnið myndi „sprengja alla Beirút“ ef það yrði ekki fjar­lægt.

Er­lendir fjöl­miðlar greina frá því að efnið hafi verið geymt á hafnar­svæðinu frá árinu 2014. Ammóníum­nítrat hefur áður valdið mann­skæðum sprengingum, þar á meðal sprengingu sem varð í Texas City í Texas í Banda­ríkjunum árið 1947. Þá sprakk skip sem var með rúm 2.300 tonn af ammóníum­nítrati í loft upp með þeim af­leiðingum að 581 lést. Þá létust 173 í Tianjin í Kína árið 2015 eftir að ammóníum­nítrat sem geymt var við ó­tryggar að­stæður sprakk.

Í frétt Guar­dian kemur fram að yfir­völd í Líbanon séu undir tals­verðum þrýstingi vegna málsins. Staða efna­hags­mála er slæm og hefur landið verið sagt á barmi fjár­mála­kreppu. Í kvöld til­kynntu yfir­völd í Líbanon að nokkrir yfir­menn hafnarinnar hefðu verið settir í stofu­fangelsi meðan rann­sókn á meintum þætti þeirra fer fram.

Frétta­blaðið ræddi í morgun við Sigurð Ás­gríms­son, sprengju­sér­fræðing hjá Land­helgis­gæslunni, sem sagði að ammóníum­nítrat hefði verið notað í á­burð hér á landi á árum áður. Hann kvaðst ekki vita til þess að efnið væri til í geymslum hér­lendis, en Ís­lendingar væru þó löngu hættir að nota efnið.

Talið er að skemmdir hafi orðið á heimilum minnst 300 þúsund borgar­búa í Beirút, en í­búða­byggð var í að­eins hundrað metra fjar­lægð frá staðnum þar sem efnið var geymt. Til við­bótar við þá 135 sem stað­fest er að hafi látist er tuga enn saknað. Við­búið er að tala látinna muni hækka tals­vert á næstu dögum.