Mikil óánægja er meðal Sjálfstæðisfólks í Reykjavík eftir fund stjórnar Varðar, fulltrúaráðs flokksins, í Reykjavík á þriðjudag.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var ákvörðun um leiðtogakjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar alls ekki á dagskrá fundarins og kom hluti stjórnarmanna af fjöllum þegar hún var borin upp.

Á stjórnarfundi í Verði fyrir tveimur vikum var ákveðið að valið yrði á lista í Reykjavík með hefðbundnu prófkjöri, sem fara átti fram 26. febrúar næstkomandi.

Fyrir fundi stjórnarinnar síðastliðinn þriðjudag lá að ákveða hvaða dag ætti að boða fulltrúaráðið til fundar til að staðfesta ákvörðun um prófkjör.

Þar sem um eins konar afgreiðslufund var að ræða mættu ekki allir stjórnarmenn til fundarins og aðeins hluti stjórnarmanna vissi að til stóð að bera upp tillögu um aðra leið við val á lista.

Eyþór Arnalds hefur fagnað ákvörðun stjónarinnar en Hildur Björnsdóttur hefur lýst yfir óánægju.

Viðmælendur Fréttablaðsins telja líklegt að ákvörðunin verði felld af fulltrúaráðinu í janúar en aukinn meirihluta í ráðinu þarf til að staðfesta hana.