Tvítug kona lést á Indlandi á nýársdag þegar bíll keyrði á vespu hennar er hún var á leið heim úr vinnunni. Konan vann sem viðburðastjóri í höfuðborginni Nýju-Delí þar sem slysið átti sér stað og hafa fimm verið handteknir í tengslum við málið.
Bílslys eru algeng á Indlandi en þetta slys hefur aftur á móti vakið mikla reiði meðal almennings í ljósi þess hve hrottalegt það var.
Indverska lögreglan segir að ökumaður bílsins og farþegarnir fjórir hafi keyrt í nokkra kílómetra eftir áreksturinn og hafi bíllinn dregið lík konunnar með sér. Mennirnir halda því fram að tónlistin í bílnum hafi verið of há fyrir þá til að heyra öskur konunnar.
Dagblaðið The Indian Express greindi frá því að lík konunnar hafi verið dregið eftir veginum í tæpa klukkustund og hringdu að minnsta kosti fimm vitni í lögregluna áður en líkið fannst. Indverjar eru einnig undrandi á því að slysið hafi gerst á sama tíma og nýársfögnuður stóð yfir og þúsundir lögreglumanna voru úti á götum borgarinnar.