„Ég var að koma við í kirkjunni í morgun og sækja dót. Þegar ég keyri inn á planið sé ég að fáninn er niðri. Fyrst hélt ég að ein­hver hefði tekið hann niður því Hin­segin dagar eru búnir, en svo sá ég að snúrurnar voru ekki fastar þannig ég geng að honum. Þá sá ég að það var búið að brjóta hann saman og hann lá þarna við fána­stöngina. Ég ætlaði að hengja hann upp aftur og þá sá ég að það var búið að rífa hringinn öðru megin, þannig að það er ekki hægt að hengja hann upp aftur. Hann er ó­nýtur,“ segir Sunna Dóra Möller, sóknar­prestur í Hjalla­kirkju.

Hún segir að sér hafi verið veru­lega brugðið við að­komuna. „Mér líður svo­lítið eins og það hafi verið ráðist á okkur.“

Sunna Dóra segir þetta aug­ljóst vilja­verk þar sem fáninn sé allur rifinn og tættur. Málið sé hið dapur­legasta, þá sér­stak­lega þar sem þetta er í fyrsta skipti sem regn­boga­fáninn er dreginn að húni við bæði Hjalla­kirkju og Digra­nes­kirkju í Kópa­vogi síðan hún tók við stöðu sóknar­prests.

„Við vorum svo stolt af því að hengja upp regn­boga­fánann, sér­stak­lega út af um­ræðunni í sam­fé­laginu. Maður finnur svo mikið að um­ræðan er því miður svo­lítið breytt. Það er ein­hvern veginn meiri mót­staða og auknir for­dómar í sam­fé­laginu. Þess vegna vorum við svo stolt að taka í þessari bar­áttu núna,“ segir Sunna Dóra.

Sunna segir að í ljósi þessa at­burðar sé sýni­leikinn mikil­vægari en aldrei fyrr.

„Regn­boga­fáninn er tákn fyrir að við erum alls­konar og eigum rétt á því að vera alls­konar, þannig að þetta er ekki bara árás á hin­segin sam­fé­lagið heldur alla. Það er svo mikil­vægt að ýta undir fjöl­breytnina og taka þátt í því og kirkjurnar hafa alltaf verið stolt af því að taka þátt í því,“ segir Sunna Dóra. Þetta sé í fyrsta skipti sem hún upp­lifi svona.

Þegar Frétta­blaðið ræddi við Sunnu Dóru hafði hún ekki rætt við lög­reglu vegna málsins. Hún sagðist þó ætla að gera það hið fyrsta.

„Þetta er náttúru­lega bara haturs­glæpur vegna þess að skemmdar­verkið er svo aug­ljóst,“ segir Sunna Dóra. Þróunin sé ó­huggu­leg.

„Fólk er að mót­mæla því að regn­boga­fáninn hangi uppi. Það þarf al­gjör­lega að grípa til að­gerða gegn því. Og besta leiðin til þess er að tala um að þetta sé að gerast,“ segir Sunna Dóra.