Fækka þarf íþyngjandi reglum og reglugerðafargani til að hægt sé að halda launum á Íslandi háum. Þetta segir Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.

Í gær kom út skýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar um Ísland, um er að ræða úttekt sem kemur út annað hvert ár. Í henni kemur fram að samkeppnishæfni íslensks efnahagslífs sé á niðurleið vegna þess að laun hækki hraðar en framleiðni. Sá hagvöxtur sem náðst hefur eftir hrun efnahagslífsins árið 2008, þökk sé gengisfellingu krónu er nú uppurinn.

„Minnkandi samkeppnishæfni Íslands er áhyggjuefni fyrir alla landsmenn því hún leiðir til færri og ótryggari starfa og minna svigrúms til að greiða laun og skatta,“ segir Davíð.

Íslenskt hagkerfi ekki eins opið og það gæti verið

Í úttektinni segir að íslenskt hagkerfi sé ekki eins opið og það gæti verið og að það dragi úr vexti þess. Mikilvægt sé að opna hagkerfið en íslenskt hagkerfi er undir meðaltali OECD-ríkjanna þegar kemur að þeim hluta.

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að útgjöld eftirlitsstofnana hefðu aukist umtalsvert frá árinu 2010. Í skýrslunni segir að reglubyrði hér á landi sé ekki í samræmi við þarfir lítils opins markaðar. „Regluverkið er útþanið og strangt,“ segir í skýrslunni. „Miklar hömlur eru á allri þjónustu og í öllum tilvikum meiri en á hinum Norðurlöndunum.“ Er mælst til að stjórnvöld geri alhliða áætlun um umbætur á regluverki og opinberu eftirliti.

Viðskiptahömlur á vöru og þjónustu árið 2018.
Mynd/Fréttablaðið
Laun eru há á Íslandi og þannig viljum við að það verði áfram. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að ríkið minnki skattheimtu

Davíð telur að minnka verði reglubyrði strax. „Laun eru há á Íslandi og þannig viljum við að það verði áfram. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að ríkið minnki skattheimtu, sem er ein sú hæsta í heimi, og minnki reglubyrði strax, einkum með nauðsynlegum breytingum á samkeppnislögum sem myndi auðvelda óhjákvæmilega hagræðingu í atvinnulífinu.“ Mætti þá byrja á að breyta samkeppnislögum til að gera þau sambærileg evrópskri samkeppnislöggjöf.

Davíð Þorláksson forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.
Mynd/Aðsend

Segir tölurnar ekki koma á óvart

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að tölur OECD um viðskiptahömlur á vöru og þjónustu komi ekki á óvart.

„Við höfum bent á að það að stofna fyrirtæki er bara ævintýralega flókið fyrirbæri sem krefst alls konar leyfa og vottorða. Stundum þarf að fá vottorð frá einni stofnun til að fá vottorð hjá annarri stofnun,“ segir Ólafur. „Það hefur ítrekað verið talað um það á síðustu árum að breyta lögum til að ný starfsemi fyrirtækja verði tilkynningarskyld fremur en leyfisskyld. Það væri svo stjórnvalda að hafa eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum. Það fyrirkomulag teljum við farsælla en að þurfa stafla af leyfum fyrir fram. Þetta hefur lengi verið á verkefnaskrá stjórnvalda, en ekki komist í verk.“

Í skýrslunni er einnig rætt um samkeppnismál, en OECD vinnur nú að svokölluðu samkeppnismati á byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu með íslenskum stjórnvöldum. Er mælst til þess að stjórnvöld fari sem fyrst að ráðleggingum um að minnka regluverk á þeim sviðum.

„Okkur finnst það nú skjóta skökku við að ýmsar greinar séu undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga, eins og til dæmis mjólkuriðnaðurinn. Í kjötframleiðslu hafa menn verið að biðja um sambærilegar hindranir á samkeppni í stað þess að fara í hina áttina og fella niður samkeppnishömlur,“ segir Ólafur. „Okkur finnst þessi skýrsla vera afskaplega þörf áminning til íslenskra stjórnvalda um að taka upp og einfalda regluverk atvinnulífsins.“