Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar, gaf lítið fyrir komu Donalds Trump, sitjandi Bandaríkjaforseta, til Skotlands en Trump er sagður vera að íhuga að koma til Skotlands síðar í mánuðinum.

„Ég veit ekki hver ferðaáform Donalds Trump eru,“ sagði Sturgeon þegar hún var spurð út í málið á blaðamannafundi í gær. Hún áréttaði að útgöngubann væri nú í gildi vegna heimsfaraldurs COVID-19 og ónauðsynlegar ferðir til og frá landsins væru bannaðar.

Fjölmiðlar hafa viðrað þá hugmynd að Trump muni ferðast til Skotlands svo hann þurfi ekki að vera viðstaddur þegar Joe Biden tekur við embætti forseta þann 20. janúar næstkomandi en Hvíta húsið hefur ekki staðfest slíkt.

„Reglurnar eru þær sömu fyrir hann og alla aðra, og ég tel að það að koma til að spila golf falli ekki undir nauðsynleg ferðalög,“ sagði Sturgeon létt í bragði og vísaði þar til þess að Trump ætti golfvelli í Ayrshire og Aberdeenshire.