Leifur Finnbogason, formaður nemendafélagsins á Bifröst, segir nemendum refsað fyrir dugnað.

Nemendafélag Háskólans á Bifröst (NFHB) vekur athygli á stöðu þeirra námsmanna sem hafa verið í 100 prósent vinnu samhliða lánshæfu námi hjá LÍN. Hafi þeir námsmenn misst sína 100 prósent vinnu þá eiga þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

„Meik­ar það ein­hvern sens? Auðvitað ekki. Þetta er kerf­is­galli sem þarf að laga. Þetta er svo aug­ljós­lega fá­rán­legt að það ætti ekki að vera til sú mann­eskja sem veit af þessu ástandi og ger­ir ekk­ert til að reyna að laga það. Samt er ekki búið að laga þetta,“ skrifar Leifur í grein í Morgunblaðinu.

Sagt upp hjá Icelandair og fékk 20 þúsund krónur

Leifur segist þekkja dæmi um námsmann sem var í fullu starfi hjá Icelandair og hafði lengi verið í fullu starfi á vinnumarkaði en var á síðasta námsári einnig í fullu námi við Háskólann á Bifröst. Þegar viðkomandi missti sitt starf hjá Icelandair komst hann að því að hann hafði ekki rétt á atvinnuleysisbótum sem „námsmaður.“

Viðkomandi reyndi þá að sækja um lán hjá LÍN og fékk 20.000 krónur.

„Þannig er fjárhagslega besti kostur þess námsmanns að hætta í námi og bíða sinn biðtíma eftir því að geta talist í virkri atvinnuleit. Í millitíðinni er enginn kostur á tekjum,“ segir í tilkynningu NFHB til Fréttablaðsins.

Launþegi í námi eða nemi í vinnu?

Nemendafélagið bendir á að um 65 prósent nemenda við Háskólann á Bifröst eru í 76 til 100 prósent vinnu. Þau segja fáránlegt að kerfið skuli lít­a á þetta fólk einungis sem náms­menn þrátt fyrir að það hafi stundað vinnu sam­hliða námi.

„Kerfið ætti að líta á þetta fólk sem launþega sem stunduðu nám sam­hliða vinnu. Það er nefni­lega þannig að þetta fólk get­ur ekki einu sinni leitað aðstoðar hjá LÍN. Það var of tekju­hátt árið 2019 til að fá náms­lán að nokkru ráði – enda launþegar árið 2019. Þau fá kannski 20.000 krón­ur í náms­lán og þurfa svo að bíða fram í janú­ar 2021 til að fá náms­lán sem miða að tekj­um árs­ins 2020. Nú – eða ein­fald­lega segja sig úr námi og bíða eft­ir því að geta tal­ist í virkri at­vinnu­leit.“