Hertar sam­komu­tak­­markanir, sem miða við að hundrað manns komi saman og að tveggja metra reglan sé við­höfð alls staðar, verða í gildi næstu tvær vikur miðað við þá til­­lögu sem heil­brigðis­ráð­herra lagði fram og ríkis­­stjórnin sam­þykkti í morgun. Ráð­herrann segir þó að á­­fram verði staðan metin dag frá degi og úti­­lokar ekki að lands­­menn gætu þurft að venja sig á herðingar og skerðingar á tak­­mörkunum til skiptis á næstu mánuðum, á meðan veiran er á ferð í heiminum.

Spurð út í bak­slag síðustu daga í bar­áttu við veiruna segir Svan­­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra að alltaf hafi verið vitað að veiran væri á fullri ferð í heiminum og því myndi hún alltaf enda á því að koma til landsins vegna þess að við erum ekki „ein­angrað sam­­fé­lag“. „Á meðan við erum í sam­­skiptum við um­­heiminn og veiran er enn þá í gangi munum við lenda í þessu. Sótt­varna­­læknir sagði alltaf að við mættum búast við því að glíma við klasa­­sýkingar, hóp­­smit og mögu­­lega nýja bylgju,“ segir Svan­­dís.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddi við Fréttablaðið eftir blaðamannafundinn í dag.
Fréttablaðið/Ernir

„Staðan er núna þannig að við vitum ekki hver staðan er og þurfum meiri tíma til að ná utan um þetta,“ segir hún þá. Þannig var á­­kveðið að ráðast í harðar tak­­markanir nú í fyrstu eftir að fjöldi innan­­lands­­smita hefur greinst síðustu daga. Alls eru 39 í ein­angrun með virkt smit á landinu og greindust 10 þeirra í gær. Þær til­lögur sem Svan­dís sam­þykkti frá sótt­varna­lækni gera ráð fyrir tveimur vikum en hún segir að staðan verði metin dag frá degi.

„Sótt­varna­­læknir rök­­styður þetta með því að það sé skyn­­sam­­legt að stíga mjög á­­kveðið niður fyrir þessa miklu ferða­helgi frekar en að bíða og sjá og vera þá mögu­­lega að eiga við miklu stærra og flóknara vanda­­mál um miðjan ágúst,“ segir heil­brigðis­ráð­herrann. „Þannig að þetta byggir nú eins og hingað til á fræði­­legum og vísinda­­legum rökum, er vel undir­­byggt og þess vegna var ekki flókið að gera þessa til­­lögu að minni.“

Þurfum að lifa með veirunni

Þór­ólfur Guðna­son hafði, áður en innan­lands­smit fóru að koma aftur upp á landinu, sagt að næsta stóra verk­efni væri að læra að lifa með veirunni næstu mánuði eða ár. Hún væri enn þá í fullum vexti í heiminum og ekki á leið í burtu á næstunni.

Að­­spurð hvort megi búast við miklum sveiflum í sam­komu­tak­­mörkunum á landinu næstu mánuði og leyfi­­legum fjölda þeirra sem koma saman úti­­lokar Svan­­dís það ekki: „Við þurfum að koma okkur á þann stað í ís­­lensku sam­­fé­lagi að við getum haldið á­­fram dag­­legu lífi í sam­búð við þessa veiru. Til þess að við gerum það þurfum við að sýna þann sveigjan­­leika að geta gripið til ráð­­stafana og slakað áftur á þeim á meðan veiran er á meðal okkar. Það er bara þannig.“