Margir Íslendingar verða á faraldsfæti yfir hátíðarnar. Ferðahegðun Íslendinga hefur breyst og sífellt fleiri ferðast með einungis handfarangur.

Jólin eru hjá mörgum tími hefða og jafnvel þó að fólk haldi upp á þau í fjarlægum löndum vill það oft fá sín jól, ekki síst þegar kemur að jólamatnum.

Fréttablaðið kannaði lauslega hver staðan er varðandi flutning á matvælum í flugi, annars vegar í innrituðum farangri og hins vegar í handfarangri um borð í farþegarými.

Samkvæmt heimasíðu Matvælastofnunar er almenna reglan sú að innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að taka matvæli sem innihalda dýraafurðir til einkaneyslu milli landa.

Til Bandaríkjanna má fara með allt að 22,6 kíló af lambakjöti, sem verður að vera í neytendapakkningum og merkt með auðkennismerki. Einnig er leyfilegt að hafa lítið magn af fiski (hráum, frystum, þurrkuðum, reyktum, soðnum eða niðursoðnum).

Mikilvægt er að gefa öll matvæli upp í tolli, annars getur það varðað háum fésektum.

Víða eru strangar reglur um innflutning ávaxta og grænmetis og sums staðar, eins og til dæmis í Bandaríkjunum, bannað með öllu.

Hvað handfarangurinn varðar gilda almennar öryggisreglur um það hvað má fara um borð og hvað ekki.

Flugfélög hafa sínar reglur um stærð og þyngd handfarangurs. Alveg ljóst er að þeir sem ferðast aðeins með handfarangur fá ekki Ora-grænar baunir með jólasteikinni sinni. Öryggisreglur banna þær í handfarangri vegna þess að í þeim eru meira en 100 millilítrar af vökva.