Dóms­mála­ráð­herra breytti í dag reglu­gerð um út­lendinga sem veitir nú Út­lendinga­stofnun heimild, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, til að taka til efnis­legrar með­ferðar mál barna sem hlotið hafa vernd í öðru ríki, ef það eru meira en tíu mánuðir liðnir frá því að um­sókn þeirra barst ís­lenskum stjórn­völdum. Eða ef það er ekki á þeirra eigin á­byrgð ef mál þeirra hefur tafist í með­ferð.

Greint var frábreytingu reglu­gerðarinnar í stjórnar­tíðindum og öðlast reglu­gerðin nú þegar gildi. Í lögum um út­lendinga segir nú að meira en ár þurfi að vera liðið frá um­sókn þar til hún fær af­reiðslu. Með nýrri reglu­gerð Þór­dísar Kol­brúnar, dóms­mála­ráð­herra, hefur nú biðin verið stytt um alls tvo mánuði þegar börn eru hluti af um­sókninni.

Mál Sarwary- og Safari fjölskyldnanna falla undir breytinguna

Mál þeirra tveggja af­gönsku fjöl­skyldna sem hafa verið til um­ræðu undan­farna viku falla bæði undir þessa nýju skil­greiningu, en um 11 mánuðir eru frá því að Sarwary-feðgarnir komu til landsins og Safari fjöl­skyldna kom til Ís­lands um mitt síðasta ár og hefur því verið hér í heilt ár.

Lög­maður fjöl­skyldnanna, Magnús D. Norð­dahl, hefur í vikunni sent kæru­nefnd út­lendinga­mála endur­upp­töku­beiðni þar sem þess er krafist að fyrri úr­skurðir Út­lendinga­stofnunar um að taka mál fjöl­skyldanna ekki til efnis­legrar með­ferðar verði felldir úr gildi. Mál þeirra voru ekki tekin til með­ferðar, meðal annars, vegna þess að þau höfðu áður hlotið al­þjóð­lega vernd í Grikk­landi.