Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur reglulega hald á lyf og fíkniefni sem fólk hefur haft í vörslu sinni sem hægt er að nota til að byrla fólki.

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir mikilvægt að hafa í huga að lyfin sem hafa fundist á fólki séu líka notuð til einkaneyslu.

Ekki allir hafi eitthvað illt í hyggju. Að sögn Ævars Pálma eru lyfin sem lögreglan hefur lagt hald á í vökva-, duft-, og töfluformi.

Einhver lyfjanna séu lögleg og hægt að fá ávísað hjá læknum vegna veikinda, önnur séu það ekki og almennt ólögleg.

„Hvort sem þau eru lögleg eða ólögleg þá eru þau þekkt sem lyf til einkaneyslu samkvæmt læknisráði og sem vímugjafar til misnotkunar,“ segir Ævar Pálmi.

Hann segir lögregluna ekki hafa orðið vara við byrlanir með sprautum hér á landi líkt og hefur tíðkast undanfarið í Bretlandi.

Hrönn Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldi, sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að starfsfólk neyðarmóttökunnar ekki hafa orðið vara við að einstaklingum sé byrlað ólyfjan með sprautu hér á landi.