Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir það ekki útilokað að reglugerðin sem hún kynnti í hádeginu um tilslakanir breytist áður en hún á að taka gildi ef fjöldi smita utan sóttkvíar verður áfram eins og í dag. Í dag greindust þrjú innanlandssmit og var enginn þeirra í sóttkví.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í dag á RÚV að tölur dagsins væru áhyggjuefni og að ef smitin yrðu aftur svona á morgun myndi hann mögulega skila inn nýjum tillögum til ráðherra áður en ný reglugerð tekur gildi á föstudag. Ráðherra tilkynnti þó áðan að ný reglugerð taki gildi á fimmtudag. Sjá hér í frétt RÚV.

Spurð út í þetta og hvort að reglugerðirnar gætu breyst sagði Svandís það ekki útilokað.

„Það er auðvitað aldrei útilokað,“ segir Svandís. Hún sagði að þau hafi séð það í gegnum faraldurinn að það sem þau segja tekur alltaf mið af bæði gangi faraldursins og því hverju sóttvarnalæknir segir.

„Það er vont að sjá dæmi um smit utan sóttkvíar og við tölum ekki um þegar þau eru fleiri en eitt og fleiri en tvö,“ segir Svandís.

Eins og áður hefur verið greint frá kynnti Svandís í dag nýja reglugerð sem tekur gildi á miðnætti á fimmtudag. Samkvæmt henni mega 20 koma saman, íþróttastarf verður heimilað og sundlaugar og líkamsrækt opna með leyfi fyrir helmingi gesta.