Verið er að skoða mál hins landsþekkta refs Gústa Jr., að sögn umsjáraðila hans Ágústs Beinteins Árnasonar, eða Gústa B.

„Ég held þetta sé fyrsti refurinn í heiminum til að fá lögmann,“ segir Gústi B. Skoðað sé hvort refurinn flokkist sem villt dýr þar sem hann hefur búið hjá mannfólki í sex ár.

„Þetta er í ferli núna og vonandi verður niðurstaðan sú að Gústi Jr. fær að vera heima hjá sér, sem sagt mér,“ segir Gústi B.

Íhugar að deila forræði

Nafnarnir vöktu mikla athygli á TikTok nýverið þar sem Gústi B. birti nokkur myndskeið af sér með refnum Gústa Jr. Mikil umræða skapaðist í kjölfarið þar sem Matvælastofnun, MAST, ásamt fleirum hvatti Gústa B. til að afhenda refinn, óheimilt væri að halda villt dýr. Að sögn Gústa B. komu starfsmenn MAST meðal annars heim til hans og óskuðu eftir að fá refinn afhentan til að koma honum í umsjá Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.

„Ég óttast hvað gerist ef hann hittir villta refi eins og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Gústi Jr. er ekki vanur því að umgangast aðra refi,“ segir Gústi B. en hann sé tilbúinn að íhuga að deila forræði með húsdýragarðinum.

Búa í foreldrahúsum

„Ég fæ tugi sím­hringinga á dag, annað hvort frá fólki sem er að drulla yfir mig eða fólki sem hrósar mér, að láta ekki undan og passa upp á hann eins og ég get,“ segir Gústi B. Hann láti fag­fólk um að meta að­stæður Gústa Jr., „ekki sjálf­skipaða Twitter sér­fræðinga.“

Refurinn lifi góðu lífi í hans um­sjá en þeir búa saman á heimili for­eldra Gústa B. Að­spurður hvað for­eldrum hans þyki um nýja fjöl­skyldu­með­liminn hlær hann og segir sam­talið þegar hann var ný­búinn að verða sér út um Gústa Jr. hafa verið erfitt að eiga. „Getur rétt í­myndað þér,“ segir Gústi B en eftir að hafa út­skýrt málið vel hafi hann fengið að halda í refinn.

„Það er al­gjör furða, þau fýla hann held ég, og amma. Amma er sólgin í hann Gústa Jr. Hún hefur mjög gaman af honum, þau eru mestu mátar. Hún fær að passa hann þegar ég þarf að bregða mér út,“ segir hann.

Gústi B. mynd eftir Óla Má.
Mynd/Aðsend

Ekki eingöngu refaeigandi

Að­spurður segist Gústi B. ekki ein­göngu vera refa­eig­andi, honum sé margt til listanna lagt og sé hálf­gerður þúsund­þjala­smiður. Hann sé í há­skóla á­samt því að vera leikari, plötu­snúður og að búa til tón­list. „Maður er að bar­dúsa ýmis­legt annað þó að fólk haldi að maður sé bara sam­fé­lags­miðla trúður,“ segir Gústi B.