Í dag stoppaði refur við á skóla­lóð Ár­túns­skóla og gæddi sér svo á sam­loku­af­göngum. Á vef skólans kemur fram að þeir nem­endur sem hafi séð til refsins hafi verið mjög spenntir en myndin að ofan náðist af honum þegar hann gæddi sér á sam­lokunni.

Fjallað hefur verið um téðan ref í fréttum en í gær hafði sést til hans í Stekkjar­bakka. Í til­kynningu frá Dýra­þjónustu Reykja­víkur kemur fram að þau hafi fengið á­bendingar um ref, eða refi, í austur­hluta borgarinnar, í Árbæ og Breið­holtinu í nánd við Elliða­ár­dalinn.

Þar kemur fram að upp­runi dýrsins eða dýranna sé ekki þekktur en að það sé þó vitað að þau komi ekki úr hús­dýra­garðinum.

„Það vekur hins vegar upp spurningar að þessi tófa (eða tófur) virðist gæfur og sækja í fólk fremur en hitt. Al­mennt eru villtar tófur styggar og forðast fólk. Það er því spurning hvort hér sé um að ræða dýr sem hafa verið í haldi manna,“ segir í til­kynningu Dýra­þjónustunnar.

Þar segir að þrátt fyrir að heim­skauta­refir, eða tófur, séu ekki hættu­legar mönnum sé ekki skyn­sam­legt að reyna að klappa þeim. Færsluna má sjá hér að neðan.