Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér bann við afneitun helfararinnar.

Í frumvarpinu, sem birt var á vef Alþingis í morgun, er kveðið á um breytingu á almennum hegningarlögum og við þau bætist refsinæmi þess að afneita þjóðarmorði nasista á fimmta áratug síðustu aldar.

Auk Rósu mæla átta þingmenn Samfylkingarinnar með frumvarpinu og einn þingmaður Viðreisnar.

Ákvæði sem lagt er til að bætist við hegningarlögin kveður á um að hver sem „opinberlega afneiti, geri gróflega lítið úr, eða reyni að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni“  skuli sæta sektum eða fangelsisvist allt að tveimur árum.

Hver sem opinberlega afneitar, gróflega gerir lítið úr, eða reynir að réttlæta eða samþykkja þjóðarmorð sem framin voru á vegum þýska nasistaflokksins í síðari heimsstyrjöldinni skal sæta sektum eða fangelsisvist.

Lagt er til að refsinæmið verði bundið við tjáningu, prentaða, munnlega eða annars konar tjáningu, einnig í formi listar eða athafnar. Hún þurfi að vera opinber til að vera refsiverð og myndu einkasamtöl ekki falla undir ákvæðið. Það kynni hins vegar að ná til tjáningar á samfélagsmiðlum.

Bannið í samræmi við tjáningarfrelsi

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að heimilt sé að takmarka tjáningarfrelsi sem kveðið er á um í 73. gr. stjórnarskrárinnar og með ákvæðinu væri lagaáskilnaðarskilyrðið uppfyllt. Óvefengjanlegar heimildir séu fyrir þjóðarmorði þýskra nasista og bannið samræmist því lýðræðishefðum. Þá sé afneitun helfararinnar til þess fallin að raska allsherjarreglu, sem er einnig skilyrði fyrir því að takmarka megi tjáningarfrelsi.

Í greinargerðinni er einnig vísað til dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu um að bann við tjáningu sem feli í sér afneitun á helförinni, samræmdist mannréttindasáttmála Evrópu. Fjölmörg Evrópuríki hafi sett ákvæði í lög sem geri réttlætingu eða afneitun helfararinnar, refsiverða.

Efasemdum mótmælt

RÚV greindi frá því síðastliðinn desember að umsögn sem hafði verið send á allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem efasemdum var lýst yfir um helförina, hafi verið fjarlægð af vef Alþingis en umsögnin barst við þingsályktunartillögu frá hópi þingmanna þar sem lagt var til að minningardagur yrði haldin um fórnarlömb helfararinnar þann 27. janúar á hverju ári.

Þá hafi einnig verið mikil umræða um útgáfu Bókatíðinda fyrir jól þar sem kynning á bókinni Tröllaskaga 20. aldarinnar, eða The Hoax of the Twentieth Century, var birt fjölmargir mótmæltu birtingunni þar sem bókin er alræmd fyrir að hafna helförinni.