Hörð refsistefna í fíkniefnamálum hefur valdið því að hlutfallslega sitja mun fleiri inni fyrir slík brot hér en í nágrannalöndunum. Í fyrra sátu 35 prósent íslenskra fanga inni fyrir fíkniefnabrot á meðan hlutfallið á Norðurlöndum er 20 til 25 prósent. Í gervallri Evrópu er hlutfallið aðeins hærra í einu landi, Lettlandi, samkvæmt nýrri skýrslu Evrópuráðsins.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði, bendir á að fyrir um aldarfjórðungi hafi hlutfallið verið mun lægra, í kringum 10 prósent. Aukin harka hafi verið sett í málaflokkinn á undanförnum áratugum og hlutfallið verið í kringum 40 prósent árin 2018 og 2019. Undir þetta heyrir framleiðsla, smygl og dreifing efnanna.

Flestir telji fíkniefnabrot til alvarlegustu brota

Þegar kemur að dómum er refsi­ramminn betur nýttur í fíkniefnabrotum en auðgunar-, ofbeldis- og kynferðisbrotum. „Efri mörkin eru tólf ár og við sjáum oft farið ansi nálægt því, kannski sjö upp í ellefu ára dóma,“ segir Helgi. Þetta sé gert þó að stór hluti dæmdra sé augljóslega burðardýr eða smásalar að fjármagna eigin neyslu. „Mat stjórnvalda er að þetta séu þau brot sem valdi hvað mestum vanda í okkar samfélagi og í samfélaginu er engin gagnrýni á þessa stefnu.“

„Í samfélaginu er engin gagnrýni á þessa stefnu.“

Helgi sér stuðninginn birtast í könnunum sem hann hefur gert. Flestir telja fíkniefnabrot með þeim alvarlegustu og vilja að lögreglan hafi rúmar rannsóknarheimildir til að takast á við þau. „Við sjáum ekki aukatekið orð, hvorki á þinginu né annars staðar í samfélaginu, um að það þurfi að draga úr refsihörku fyrir þessi fíkniefnabrot,“ segir Helgi. Allt annað gildi um afstöðu til vörslu neysluskammta, sem heilbrigðisráðherra hyggst afglæpavæða með nýju frumvarpi. En fólk fer ekki í fangelsi fyrir vörslu.

Hlutfallslega fæstir í fangelsi á Íslandi

Samkvæmt skýrslunni er hlutfallslegur fjöldi fanga á hverja 100 þúsund íbúa lægstur á Íslandi í allri álfunni og hefur farið lækkandi um 13 prósent undanfarinn áratug, meðal annars vegna afplánunar utan fangelsa og plássleysis. Á ákveðnum tímapunkti á síðasta ári sátu 164 inni og 28 af þeim í gæsluvarðhaldi.

Af dæmdum sátu 47 inni vegna fíkniefnabrots, langstærsti einstaki hópurinn. Nítján sátu inni vegna umferðarlagabrots, sextán vegna morðs eða morðtilraunar, þrettán fyrir líkamsárás, tólf fyrir þjófnað, átta fyrir nauðgun og tíu fyrir aðra kynferðisglæpi, fjórir fyrir rán, einn fyrir fjármálamisferli og fimm fyrir aðra glæpi.

Meðalaldurinn 36 ár og fáir yfir fimmtugu

Eins og annars staðar eru langflestir fangar hér karlar, 152 á móti tólf konum. Meðalaldur þeirra er 36 og hálft ár og fjórir voru yfir 65 ára aldri. 48 voru að afplána árs dóm eða styttri en 15 voru að afplána dóma lengri en tíu ár. Tveir fangar létust, þar af stytti annar sér aldur, og einn flúði.

Aðspurður um plássleysið og hina löngu biðlista í afplánun segir Helgi það mannúðlega stefnu að hrúga ekki fleiri föngum inn en fangelsin bera, en Íslendingar hafa ekki viljað hafa fleiri fanga en klefarnir eru, ólíkt flestum löndum Evrópu. Í fyrra sat Helgi í nefnd dómsmálaráðherra til að finna leiðir til þess að stytta biðlistana. „Ég lagði til að létt yrði á kerfinu með því að veita fíkniföngum reynslulausn eftir helming afplánunar eins og margir aðrir fangar fá. En ég var einn um þá afstöðu,“ segir hann.

Fáir útlendingar í íslenskum fangelsum

Af föngum er 31 útlendingur, þar af 25 frá Evrópusambandsríkjum, sem gerir alls 19 prósent. Þrátt fyrir háværa umræðu um hversu margir útlendingar séu hér í fangelsum er hlutfallið lægra en gengur og gerist í vesturhluta Evrópu. Í Danmörku og Noregi er hlutfallið 30 prósent og í sumum löndum meirihlutinn.

Erlendir brotamenn en ekki innflytendur

Helgi telur ástæðuna fyrir þessu þá að flestir innflytjendur hér eru fólk sem komið hefur hingað til að vinna. Einnig að þeir séu líkari heimamönnum, bæði menningarlega og félagslega, en gengur og gerist víða í Evrópu. „Á Norðurlöndum og víða í Vestur-Evrópu koma margir innflytjendur frá mun fjarlægari svæðum. Þeir eiga erfiðara með að aðlagast og mæta meiri fordómum,“ segir Helgi. „Rannsóknir, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, sýna að refsiharka er meiri gagnvart innflytjendum en innfæddum, og sérstaklega ef þeir eru mjög ólíkir.“

Þá bendir hann einnig á að hér á Íslandi er allt að helmingur erlendra brotamanna ekki innflytjendur heldur fólk sem kemur til þess að brjóta af sér, jafnvel í skipulagðri brotastarfsemi. Ólíkt Íslendingum fá erlendir fíknifangar að fara á reynslulausn eftir hálfa afplánun.