Málefni togarans Júlíusar Geirmundssonar ÍS-270 og áhafnar hans voru rædd í ríkisstjórn í morgun en hafin er lögreglurannsókn á tildrögum og öðrum atvikum tengdum veikindum 22 skipverja af þeim 25 sem voru um borð í þriggja vikna túr togarans.

Sóttvarnalög taki ekki á málinu

Í minnisblaði heilbrigiðsráðherra sem lagt var fram í ríkisstjórn í morgun kemur fram að sóttvarnarlög taki ekki á atvikum eins og þeim sem urðu í togaranum, þar sem sóttvarnarlögum sé ætlað að tryggja að smitsjúkdómarar dreifi sér ekki meðal almennings. Þau taki því ekki til afmarkaðra svæða eins og skips úti á sjó.

Í minnisblaði samgönguráðherra um sjómannalög voru hins vegar rakin helstu ákvæði sjómannalaga sem átt geti við um mál togarans og veiku sjómennina.

Refsiákvæði í sjómannalögum og hegningalögum

Fram kemur að um almenna umfjöllun sé að ræða án þess fullyrt sé um hvernig atvik málsins falli undir ákvæði lagana en málið sé nú sakað sem sakamál hjá lögreglunni á vestfjörðum.

Skyldur skipstjóra ríkar

Samkvæmt lögunum hefur skipstjóri í öllum efnum hið æðsta vald á skipinu, að því er fram kemur í minnisblaðinu. „Allir, sem staddir eru um borð í skipi, eru skyldir til að vinna þau verk eftir megni sem skipstjóri metur nauðsynleg vegna öryggis skips eða manna sem á skipi eru.“

Þá segir þeim sem verkum stjórni um borð beri að sjá til þess að nauðsynlegum varúðarreglum gegn slysum og sjúkdómum sé fylgt en það sé hins vegar í verkahring skipstjóra að hafa eftirlit með heilbrigðismálum og hreinlæti á skipinu.

Vísað er til ákvæða laganna um umönnun sjúkra skipverja. Skipstjóri skuli sjá til þess að veikur skipverji fái nauðsynlega umönnun á skipinu eða í landi.

„Ef ástæða er til að ætla að skipverji sé haldinn sjúkdómi sem hætta stafar af fyrir aðra menn á skipinu skuli skipstjóri láta flytja sjúklinginn í land ef eigi reynist unnt að verjast smithættu á skipinu,“ segir í minnisblaði ráðherra með tilvísun til sjómannalaga.

Umsagnar ráðuneytis leitað um málshöfðun

Tekið er fram í minnisblaðinu að ákvæði um brot gegn lögunum nái til allra brota sem framin eru á íslenskum skipum hvar sem þau eru stödd þegar brot er framið.

Um refsiákvæði sjómannalaga er vísað til 76. gr. um að beita megi skiptstjóra sektum eða dæma hann í allt að fjögurra ára fangelsi misbeiti hann agavaldi sínu eða beiti ónauðsynlegri harðneskju við skipverja, vanræki skyldur sínar við veika eða slasaða skipverja eða láti hann skipverja eigi fá lögboðið viðurværi.

Áréttað er í minnisblaði ráðherra að leita beri umsagnar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins áður en ákært er samkvæmt þessu ákvæði.

Misbrestur á tilkynningu til gæslunnar

Næst er vikið að því í minnisblaði ráðherra að samkvæmt leiðbeiningum sem sendar voru á útgerðir hefði átt að hafa samband við Landhelgisgæslu Íslands, sem meðal annars rekur vakstöð siglinga, þegar veikinda varð vart en misbrestur hafi orðið á því.

Allt að sex ára fangelsi

Að lokum er vísað til refsiákvæða almennra hegningarlaga sem geti mögulega komið til skoðunar. Líkt og Fréttablaðið vék að í umfjöllun sinni síðastliðinn sunnudag, er einkum staldrað við 175. gr. hegningarlaganna, en í henni segir að hver, sem veldur hættu á því, að næmur sjúkdómur komi upp eða berist út meðal manna, með því að brjóta gegn lagafyrirmælum um varnir gegn næmum sjúkdómum eða varúðarreglum yfirvalda, sem þar að lúta, skuli sæta fangelsi allt að 3 árum. Refsingin getur þó orðið fangelsi allt að 6 árum, ef um sjúkdóma er að ræða, sem hið opinbera hefur gert sérstakar ráðstafanir til að hefta eða afstýra, að berist hingað til lands.