Heilbrigðisstarfsmaður hlaut alvarlega áverka í kjölfar átaka í neðanjarðarlest Lundúna eftir að hann bað farþega um að virða grímuskyldu. Samkvæmt breska vefmiðlinum Independent átti atvikið sér stað kl. 22 að kvöldi 3. október en kom ekki í ljós fyrr en nú þegar lögregla lýsti eftir aðila málsins.

Samkvæmt Independent tók heilbrigðisstarfsmaðurinn eftir að þrír farþegar sem voru með honum í lestarvagni fylgdu ekki reglum um grímunotkun. Bað hann farþegana, tvo karlmenn og konu um að setja á sig grímu. Munu farþegarnir hafa brugðist ókvæða við, einn farþeganna slegið hann margsinnis og hent honum út úr vagninum á High Street Kensington-stöðinni. Heilbrigðisstarfmaðurinn hlaut meðal annars áverka á gagnauga og kjálka.

Samkvæmt tölum frá lögreglunni í Lundúnum hafa 113 þúsund farþegar verið stöðvaðir á leið um borð vegna grímuleysis, þá hefur 1.800 manns verið vísað frá borði og 500 fengið sekt.