Kona hefur verið dæmd til 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á fyrrum sambýliskonu og barnsmóður unnusta síns fyrir framan börnin þeirra í sumarbústað árið 2018.

Eins var konan dæmd til að greiða 400 þúsund krónur í miskabætur og nær 900 þúsund krónur í áfrýjunarkostnað og málsvarnarlaun. Landsréttur staðfestir dóm héraðsdóms gegn konunni fyrir brot gegn frjálsræði.

Í dómi Landsréttar kemur fram að konan hafi verið ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, ólögmæta nauðung og brot gegn börnum.

„Með því að hafa veist með ofbeldi að fyrrum sambýliskonu unnusta síns, tekið af henni spjaldtölvu og kýlt hana ítrekað í höfuð og líkama, rifið í hár hennar og sparkað og stappað á líkama hennar, allt að börnum hennar ásjáandi,“ segir í dómi Landsréttar en talið var sannað að konan hefði rifið í líkama fyrrum sambýliskonunnar og ýtt við henni með höndum og fótum í því skyni að taka af henni spjaldtölvu.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms.

„Drengirnir hefðu staðið á palli bústaðarins grátandi og kallað: „Pabbi hættu.“

Fóru í bústaðinn til að ná í spjaldtölvu

Hin ákærða lýsti því fyrir dómnum í aðalmeðferð að hún hafi farið að sumarbústað til brotaþola ásamt unnusta sínum seint í desember 2019 til að ná í spjaldtölvu sem faðir unnusta hennar hafi átt. Spjaldtölvan hefði að geyma viðkvæmar myndir sem hún vildi endurheimta. Unnusti hennar hafi farið á undan og ætlað að ná í spjaldtölvuna en lent í stimpingum við brotaþola. Þegar ákærða kom að bústaðnum sá hún bæði brotaþola og unnusta sinn liggjandi á jörðinni eftir átökin. Hafi hún þá séð spjaldtölvuna á jörðinni, gripið hana en þá hafi komið til átaka milli hennar og brotaþola. Sagði hún brotaþola hafa kýlt sig fyrst.

Brotaþola lýsti því þannig að barnsfaðir hennar hafi reynt að ná spjaldtölvunni af henni á stígnum fyrir framan sumarbústaðinn. Þegar hún sá konuna nálgast sig til að aðstoða manninn hafi hún farið niður í grúfu til að þau næðu ekki spjaldtölvunni. Tölvan hafi legið svo þétt upp að rifjunum á henni að hún hefði átt erfitt með að anda og tölvan við það brotnað.

„Þar sem brotaþoli hafi legið á grúfu hafi hún ekki séð með hvaða hætti ákærða og Y veittust að sér og hver væri hlutur hvors um sig en hún hafi fengið bæði högg og spörk í líkama og höfuð. Gæti brotaþoli því ekki staðhæft hvort þeirra hafi veitt sér þá áverka sem voru á líkama hennar. Á meðan á árás ákærðu og Y stóð hafi brotaþoli kallað til sambýlismanns síns um að hjálpa sér. Þá mundi brotaþoli það skýrt að synir hennar hafi öskrað á meðan á árásinni stóð,“ segir í dómnum um lýsingu brotaþola.

Börnin urðu vitni að árásinni

Börn brotaþolans og mannsins urðu vitni að atvikinu sem og núverandi sambýlismaður brotaþolans og dóttir þeirra. Synir brotaþolans lýstu árásinni í skýrslutöku hjá Barnahúsi og sögðust báðir hafa séð föður sinn haldið móður sinni niðri og sparkað í hana ásamt ákærðu.

Brotaþoli lýsti því að synir hennar hefðu báðir þurft sálfræðimeðferð í kjölfar atburðarins. Sömuleiðis lýsti sambýlismaðurinn því hvernig strákarnir hefðu grátið við að sjá líkamsárásina.

„Sagðist vitnið hafa verið með [...] barn sitt í fanginu, sjokkerast við þetta og bakkað, en drengirnir hefðu staðið á palli bústaðarins grátandi og kallað: „Pabbi hættu.“

Hin ákærða áfrýjaði málinu til Landsréttar sem staðfestir dóminn. Héraðsdómur dæmdi manninn í 60 daga fangelsi og til greiðslu miskabóta.