Það var í nógu að snúast hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og í nótt. Lögregla sinnti 55 útköllum og fjórir voru vistaðir í fangageymslu.

Um hálf sjö í gærkvöld var óskað eftir skjótri aðstoð lögreglu að söluturni í Breiðholti vegna karlmanns í mjög annarlegu ástandi.

Maðurinn hafði veist að barni og konu. Í átökum lögreglu við manninn náði hann að bíta tvo lögreglumenn og hrækja á þann þriðja. Maðurinn var í kjölfarið vistaður í fangageymslu.

Þá barst lögreglu tilkynning um slagsmál í miðbænum um hálf áttaleytið. Um var að ræða tvo menn sem slógust, annar með staf og hinn með flösku. Minniháttar áverkar voru á öðrum þeirra eftir slagsmálinn.

Klukkan níu í gærkvöldi varð umferðaróhapp í Garðabæ. Bifreið var ekið aftan á aðra bifreið. Tjónvaldur stakk af en var handtekinn stuttu síðar, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var vistaður í fangageymslu.

Lögreglu bárust margar tilkynningar og kvartanir um fólk í annarlegu ástandi í gærkvöld og í nótt sem var samborgurum sínum til ama og leiðinda. Flestum var vísað eða ekið í burtu. Flytja þurfti tvo á sjúkrahús vegna ástands.