Laust fyrir miðnætti í gærkvöldi barst lögreglu á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um líkamsárás í Austurbæ en þar hafði ungur drengur í annarlegu ástandi ráðist á tvær stúlkur.

Drengurinn reyndi að ræna stúlkurnar með þeim afleiðingum að önnur stúlkan var slegin með krepptum hnefa í andlitið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Stúlkurnar náðu að hlaupa heim til foreldra en drengurinn réðst einnig á föður stúlkunnar en var haldið þar til lögregla kom á vettvang.

Lögreglan handtók drenginn og í samráði við foreldra og Barnavernd var hann vistaður á viðeigandi stofnun sökum ástands.

Um tvö leytið í nótt hafði lögreglan svo afskipti af ölvuðum ungum manni sem var með stóra kylfu í miðbæ Reykjavíkur.

Maðurinn var handtekinn grunaður um brot á vopnalögum og var kylfan handlögð af lögreglu. Maðurinn tjáði lögreglu að hann hefði orðið fyrir líkamsárás í miðbænum og að hann hafi ætlað að leita hefnda með kylfunni.

Manninum var sleppt eftir viðræður og sagðist ætla heim til sín.

Þá stöðvaði lögreglan sex ökumenn sem grunaðir eru um ölvun við akstur í gærkvöldi og nótt.