Héraðs­dómur Reykja­víkur hefur dæmt karl­mann í 30 daga skil­orðs­bundið fangelsi fyrir líkams­á­rás. Maðurinn var á­kærður fyrir að ráðast á starfs­mann 10-11 á Lauga­veginum þann 19. febrúar á síðasta ári innan­dyra í versluninni.

Sam­kvæmt á­kæru sló maðurinn starfs­manninn í­trekað, ýmist með flötum og krepptum hnefa, í and­litið.

Maðurinn játaði brot sitt greið­lega fyrir dómi og var það virt til mildunar refsingar. Þá kvaðst maðurinn iðrast verknaðarins og hegðun hans um­ræddan dag hafi litast af fíkni­vanda sem hann glímdi við. Loks var litið til þess að maðurinn hefði ekki áður gerst sekur um hegningar­laga­brot.

„Á móti kemur að á­kærði réðst af til­efnis­lausu á brota­þola sem var við störf og gaf honum rétt­mæt fyrir­mæli,“ segir í dómi héraðs­dóms. Að mati dómara þótti hæfi­leg refsing 30 daga fangelsi en dómurinn er skil­orðs­bundinn til tveggja ára.