Maður hlaut í síðustu viku þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára, í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að ráðast á annan mann við Laugarnesskóla í Reykjavík.

Atvikið átti sér stað í apríl árið 2020. Brotaþolinn sagðist hafa verið að ganga með hundinn sinn fram hjá skólanum þegar hann sá að þremur bifreiðum hafði verið lagt upp við fótboltavöll skólans. Þá hafi hann tekið upp síma til að taka myndir af bílunum en þá hafi maðurinn komið til að taka af honum símann.

Maðurinn var ákærður fyrir að veitast að hinum manninum með ofbeldi með því að slá hann með krepptum hnefa í andlitið. Síðan hafi brotaþolinn fallið í jörðina og þá hafi maðurinn haldið áfram með því að sparka og kýla í hann ítrekað á meðan hann lá í jörðinni. Fyrir vikið hlaut hann talsverða áverka í andliti.

Hinn ákærði neitaði sök og vildi meina að hann hefði vissulega tekið símann af brotaþolanum þar sem hann hélt að hann hefði verið að taka myndir af bílnum sínum. Þá sagði hann brotaþolann hafa tekið sig hálstaki og þeir báðir fallið í jörðina, en hann sjálfur lent undir. Hann hefði óttast að brotaþolinn ætlaði að ráðast frekar á sig og hefði því kýlt hann tvisvar eða þrisvar í andlitið.

Dómurinn taldi að ákærði hafi átt upptökin af átökunum með því að reyna að ná símanum af hinum manninum. Þá er vísað til framburðar vitnis sem var á vettvangi og viðurkenningu mannsins á því að hafa slegið manninn, þó hann hafi viljað meina að það hafi orsakast á annan hátt.

Það var því talið sannað að maðurinn hefði slegið brotaþola með með krepptum hnefa í andlitið.

Líkt og áður segir hlaut hann þrjátíu daga skilorðsbundin dóm. Auk þess er honum gert að greiða 300 þúsund krónur í miskabætur og tvo þriðju málsvarnarlauna verjanda síns sem voru milljón krónur.