Píkusafninu í Lundúnum var lokað í gær. Safnið hafði verið í vandræðum í nokkurn tíma, bæði vegna Covid-lokana sem og húsnæðismála.

Þórður Ólafur Þórðarson, safnstjóri Reðasafnsins í Reykjavík, harmar lokunina en Reðasafnið var ein af fyrirmyndum Píkusafnsins.

„Þetta er auðvitað leiðinlegt. Þau byrjuðu sterkt og kölluðust á við okkur í góðu. Þetta er mjög miður,“ segir Þórður. Hann hafði heyrt af vandræðum Píkusafnsins í nokkurn tíma. Ekkert formlegt samstarf var á milli safnanna en þau fylgdust með hvort öðru, svo sem á samfélagsmiðlum.

Florence Schechter heitir konan sem stofnaði Píkusafnið, eða Vagina Museum, árið 2017 en fyrsta sýningin var opnuð í Camden-hverfinu í nóvember árið 2019. Schechter fannst vanta safn fyrir píkur eftir að hafa heyrt af íslenska Reðasafninu og fjármagnaði opnunina á netinu með hópfjármögnun.

Samkvæmt Schecter var megintilgangur safnsins að afsanna goðsagnir um píkuna, upphefja hana og fylla upp í þögnina sem um hana ríkir. Einnig var tilgangurinn að styrkja ýmiss konar verkefni á sviði kynheilbrigðis og starfa með fagaðilum í heilbrigðisþjónustu. Þá var safnið í samstarfi við ýmiss konar samtök og hreyfingar femínista og gerði nokkur hlaðvörp.

Covid-lokanir komu illa við Píkusafnið eins og marga aðra menningarstarfsemi. Húsnæðismálin reyndust safninu líka erfið og gat safnið ekki endurnýjað leiguna í Camden árið 2022, þar sem safnið hafði borgað ódýrari leigu en á almennum markaði. Í marsmánuði það ár flutti safnið starfsemi sína á nýjan stað, í hverfinu Bethnal Green í austurhluta borgarinnar. Á einu ári heimsóttu 40 þúsund manns safnið. Í gær var síðasti opnunardagurinn.

Þórður Ólafur Þórðarson safnstjóri Reðasafnsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Aðra sögu er að segja af Reðasafninu sem er nú á sínu 26. starfsári. Það var um tíma á Húsavík og á Laugavegi í Reykjavík en hefur verið á Hafnartorgi síðan árið 2020.

„Reðasafninu hefur aldrei gengið betur en nú. Ég held að þetta stefni í ansi gott ár hjá okkur,“ segir Þórður aðspurður um gengi safnsins.

Hann segist vera gríðarlega ánægður með húsnæðið á Hafnartorgi. Það henti einkar vel fyrir starfsemina. Í sumar var stór stund þegar afsteypa listakonunnar Cynthiu Albritton af getnaðarlim rokkarans Jimi Hendrix var afhjúpuð á safninu.

„Hendrix er að trekkja að. Það var góð auglýsing fyrir okkur og við höfum aldrei fengið jafnmikla athygli. Fólk er að senda okkur gripi og af og til limi,“ segir Þórður. „Hendrix var mikil blessun.“