Kvennaathvarfið kynnti í morgun niðurstöður könnunar sem framkvæmd var meðal kvenna um líðan og upplifun þeirra af heimilisofbeldi. Þar er einnig fjallað um helstu persónueinkenni ofbeldismannanna. 

Könnunin var framkvæmd í haust og svöruðu henni 326 konur alls, þar af greindu 202 þeirra, eða 62 prósent, frá því að þær höfðu reynslu af ofbeldissambandi. Þar af voru 6,5 prósent kvennanna sem svöruðu enn í ofbeldissambandi. Til samanburðar svöruðu einnig konur sem ekki hafa reynslu af ofbeldissambandi, þær töldu um 38 prósent svarenda.

60 prósent verið beittar líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi

98 prósent greina frá andlegu ofbeldi, um 60 prósent frá líkamlegu og kynferðislegu. Þá greinir þriðjungur frá ofbeldi gegn börnum, að hafa verið kyrktar, fjórðungur frá stafrænu ofbeldi og einungis 7% merkja við „annað“. Í grafinu hér að neðan má sjá nánari skiptingu á tegund ofbeldis. 

Drífa Jónasdóttir verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu sem sá um að taka saman niðurstöður skýrslunnar segir mikilvægt að taka tillit til þess að margar af þeim konum sem svara könnuninni eigi fleiri en eitt barn og því sé í raun umfang ofbeldis gegn börnum mjög mikið.

Þátttakendur voru spurðir um tíðni ofbeldis og þar kom fram að af þeim sem sagði já við reynslu af líkamlegu ofbeldi sagðist 25 prósent kvenna hafa upplifað líkamlegt ofbeldi í hverri viku eða oftar. 49 prósent upplifðu fjárhagsleg ofbeldi í hverri viku eða oftar og 38 prósent kynferðislegt ofbeldi í hverri viku eða oftar.

„Varðandi tíðni ofbeldis þá er sömuleiðis ansi há samanlögð tíðni ofbeldis gegn börnum, eða 35 prósent svarenda sem tóku afstöðu til spurningar um tíðni ofbeldis gegn börnum sögðu að ofbeldið ætti sér stað í hverri viku eða enn oftar,“ segir Drífa í samtali við Fréttablaðið.

Hegðun gerenda   

Í skýrslunni var einnig skoðuð nánar hegðun gerenda, svo sem eins og að saka makann um framhjáhald, vilja stanslaust vita hvar makinn er, allir aðrir eru „fífl og fávitar", fyrrverandi eru „geðveikar“ og ekkert mark á þeim takandi   

„Við bárum svörin saman við svör kvenna í samanburðarhópi sem ekki voru með reynslu af ofbeldi og niðurstöðurnar voru mjög skýrar og í samræmi við það sem við heyrum mikið í athvarfinu og almennt er þekkt í þessum málaflokki og fræðunum,“ segir Drífa.  

Afbrýðisamir, stjórnsamir og gagnrýnir   

Konurnar voru spurðar út í þeirra upplifun á persónueinkennum mannanna. Áhugavert er að sjá samanburð á upplifun kvenna sem hafa reynslu af ofbeldi við svör kvenna sem ekki hafa reynslu af heimiliofbeldi, því yfirleitt snýst upplifun fullkomlega við. 

Drífa segir niðurstöðurnar ekki endilega koma á óvart, heldur að þær staðfesti tilfinningu fagaðila.   

„Við settum niður helstu „einkenni“ sem fram hafa komið í rannsóknum og í praxís varðandi einkennandi hegðun og persónuleika gerenda í ofbeldissamböndum. Við bárum saman rannsóknar-og samanburðarhóp. Við settum fram jákvætt og neikvætt hlaðnar fullyrðingar um upplifun kvennanna. Í stuttu máli hlóðust svör kvenna í rannsóknarhópi, það er þær sem eru með reynslu af ofbeldi á það að vera sammála neikvæðum fullyrðingum og ósammála jákvæðum fullyrðingum um persónuleika makans. Þegar skoðuð eru svör kvenna í samanburðarhópi snýst þetta yfirleitt við,“ segir Drífa.  

Á myndunum hér að neðan má sjá hvernig reynsla kvenna snýst við miðað við hvort þær hafi reynslu af ofbeldi eða ekki. Bláar súlur eru þær konur sem beittar hafa verið ofbeldi og appelsínugular þær sem ekki hafa verið beittar ofbeldi.

Skortur á upplýsingum vandamál

Konurnar voru allar spurðar hvers vegna þær féllu fyrir manninum. Drífa segir að það sé ekki mikill munur á hópunum. 

Þá voru konur spurðar um líðan við byrjun og lok sambands og segir Drífa niðurstöður í samræmi við það sem búist var við.   

„Konur lýsa því gjarnan hvernig sjálfstraustið molnar, þær halda að þær séu að verða eitthvað galnar, þeim finnst þær einangraðar og líður ekki vel eftir að hafa verið í ofbeldissambandi,“ segir Drífa.   

Konurnar voru spurðar um „rauðu ljósin“ og hvort einhverjar viðvörunarbjöllur hafi kviknað. Svör kvennanna má sjá í skýrslunni,þar segir að „í fljótu bragði virðist vera að afbrýðisemi, stjórnsemi, einangrun, aðfinnslur og mjög óheilbrigt kynlíf karlanna séu rauðu ljósin.“   

Undir lokin voru konurnar síðan beðnar um að gefa öðrum konum í sömu stöðu, fagaðilum og aðstandendum þolenda ráðleggingar til að hjálpa þeim út úr ofbeldissamböndum. Drífa segir að þar hafi skýrt komið fram að konurnar telji skort á upplýsingum, þær hafi ekki vitað hvað væri ofbeldi og hvað væri eðlilegt, voru hræddar um börnin og fjárhaginn.  

Dæmi um svör kvennanna:

„Mig vantaði meiri upplýsingar. Aðallega um hugarfar og hegðun ofbeldismanna. Ég er með háskólapróf í sálfræði en datt ekki í hug að hann væri ofbeldismaður.“

„Ég vildi að ég hefði ekki fókuserað svona mikið á að laga hann, heldur meira á mig. Það eru litlu atriðin sem gera allt svo flókið, þetta er ekki klippt og skorið - búmm kýld - þetta er svo lúmskt. Þetta tók mig sorglega langan tíma. Vildi að ég hefði vitað meira um ofbeldi og getað samsamað mig við það.“

„Ég hélt að allir karlmenn væru ofbeldisfullir og sjúkir í kynlíf. Ég var ekki með nógu góðar fyrirmyndir.“

Niðurstöður gefa ákveðna og skýra mynd af upplifun þolenda

Drífa segir að niðurstöðurnar gefi nokkuð ákveðna og skýra mynd af upplifun þeirra rúmlega 300 kvenna sem tóku þátt í könnunni.  Hún tekur þó fram að niðurstöðurnar verði að túlka og heimfæra af varfærni og að verkefnið hafi verið unnið til að reyna að skilja ofbeldið betur. Niðurstöðurnar eigi að nýta í fræðsluefni og stuðning fyrir fagfólk, þolendur og aðstandendur.

Skýrslan „Líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis & persónuleikaeinkenni ofbeldismanna“ er aðgengileg í heild sinni hér á heimasíðu Kvennaathvarfsins.