Rautt óvissustig var á Keflavíkurflugvelli á áttunda tímanum í morgun þegar flugvél kom inn til lendingar vegna bilunar í flöpsum. Um var að ræða Boeing 757 sem var að koma frá Chicago.

Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum kemur fram að vélinni hafi verið lent örugglega og að allir um borð séu heilir á húfi.

„Hún lenti án nokkurra vandkvæða rétt fyrir hálf átta,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Fréttablaðið í morgun.

Hann segir að það hafi komið tilkynning frá flugmanni um bilun og að í kjölfarið hafi ákveðið ferli af stað. Hann hafði ekki upplýsingar um stöðu vélarinnar núna eða hvenær hún fari aftur.