Af hverju er mikilvægt að halda barnaþing?


„Einfaldasta svarið við þessari spurningu er að okkur ber skylda til að hlusta á börn og taka mark á því sem þau hafa segja um sitt líf og samfélag,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, sem boðar til þingsins.


„Barnasáttmálinn leggur áherslu á rétt barna til að fá að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem þau varðar. Markmið barnaþingsins er að skapa vettvang á forsendum barna, þar sem þau fá tækifæri til að ræða við önnur börn, fá að láta í ljós skoðanir sínar og upplifa að á þau sé hlustað og mark á þeim tekið,“ segir Salvör sem lýsir barnaþinginu sem nokkurs konar þjóðfundi barna þar sem þeim gefist tækifæri til að ræða hugmyndir og skoðanir sínar á þeim málum sem þeim finnist mikilvæg.

Eftir hádegi koma síðan fullorðnir þátttakendur á fundinn, meðal annarra alþingismenn, ráðherrar, fulltrúar félagasamtaka og aðila vinnumarkaðarins.
Barnaþingið verður einstakur vettvangur fyrir umræður barna um mál sem á þeim brenna og verður haldið eftirleiðis annað hvert ár, útskýrir Salvör.


„Við erum því að byrja eitthvað alveg nýtt og spennandi. Umboðsmaður mun síðan vinna að því að niðurstöður þingsins hafi raunveruleg áhrif á stefnumótun og þróun í málefnum barna. Á næsta barnaþingi verður gerð grein fyrir því hvernig sjónarmið barnanna höfðu áhrif á stefnumótun þannig að börn upplifi að þátttaka þeirra á barnaþingi hafi haft raunveruleg og sýnileg áhrif,“ segir Salvör sem er sannfærð um að barnaþing eigi í framtíðinni eftir að vera öflugur vettvangur fyrir samráð við börn um þeirra hugðarefni.


Leggja vel við hlustir


Hverju ertu spenntust fyrir á þinginu?


„Það er mjög erfitt að nefna eitthvað eitt – ég er spennt fyrir öllu og að sjá hvernig stemningin verður, en mest hlakka ég til þess að hitta börnin sem eru þingfulltrúar. Við höfum lagt okkur fram um að undirbúa þetta vel og við erum mjög stolt yfir því að halda fyrsta barnaþingið í Hörpu sem á eftir að gefa þinginu glæsilega umgjörð. Við erum með frábært fólk með okkur í skipulagningunni eins og Pálmar Ragnarsson sem mun sjá um að halda uppi stemningu allan fundinn,“ segir hún.


„Það verður ótrúlega gaman að fá að fylgjast með vinnu barnanna og umræðum. Börnin eru valin með slembivali og þau koma víða að af landinu. Með þessu móti heyrum við frá breiðum hópi barna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir mitt embætti að heyra hvað börnum finnst um sín mál og fá þannig þeirra aðstoð við að móta áherslur í starfinu til næstu ára. Við munum hlusta mjög vel á skilaboð barnanna og það verður síðan mitt hlutverk að fylgja málum eftir við stjórnvöld.“