Rauðisandur er eitt helsta djásnið í krúnu Vestfjarða og vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Hann er 12 kílómetra langur og teygir sig frá Sjöundá að Brekkuhlíð austan Látrabjargs.

Að mjóu undirlendi sveitarinnar liggja brött fjöll sem víða eru hömrum girt. Þarna var áður lífleg byggð og búið á fjölda bæja en í dag er aðeins heilsársbyggð á Lambavatni, Stökkum og Melanesi.

Sandurinn er nefndur í Landnámu og telja sumir að heitið sé dregið af Ármóða hinum rauða Þorbjarnarsyni sem nam þar land og heiti því Rauðasandur. Heimamenn kjósa þó frekar heitið Rauðisandur og er nafnið skýrt með rauðgulum lit fjörusandsins sem rekja má til fínmulinnar hörpu- og kúskeljar.

Hlaup eða ganga eftir Melanesrifi er uppbyggjandi fyrir bæði líkama og sál.

Á sunnanverðum Vestfjörðum og Snæfellsnesi bregður skeljasandsbreiðum víða fyrir en engin þeirra kemst nálægt Rauðasandi að stærð og mikilfengleika – og er hann því sannkallaður sandrisi. Auk þess er umhverfi Rauðasands af dýrari gerðinni en skammt frá honum eru Stálfjall og Skor, sem bjóða upp á spennandi gönguleiðir fyrir vaska göngugarpa.

Styttri gönguleið liggur út á sandinn frá bílastæði við Melanes, en gangan að ströndinni tekur aðeins hálftíma og er ógleymanlegt að fylgjast með hvítfyssandi öldunum skolast inn á rauðgulan skeljasandinn. Þarna er tilvalið að skokka berfættur eftir strandlengjunni og skella sér síðan í sjósund.

Einnig er skemmtilegt að ganga út eftir Melanesrifi og fylgjast með sjávarstraumum inn og út Bæjarósinn. Innan hans er risastórt sjávarlón, Bæjarvaðall, sem á flóði líkist stöðuvatni sem að stórum hluta rís úr kafi á fjöru. Þó að ekki sé mikill gróður á rifinu státar það og Bæjarvaðallinn af afar fjölbreyttu fuglalífi og einu stærsta landselalátri á Íslandi.

Horft eftir Melanesrifi að Sjöundá og Skorarfjalli. Bærinn Melanes með tjaldstæði til vinstri og Snæfellsjökull handan Breiðafjarðar til hægri.

Útsýni vestur að Látrabjargi og Keflavík er einstakt en einnig sést vel í Snæfellsjökul þar sem hann ber við Skorarfjall í austri. Suður af því er Skor en þaðan lagði stórmennið Eggert Ólafsson nýgiftur og föruneyti í sína hinstu för vorið 1768 en þau drukknuðu í óveðri á Breiðafirði.

Á leiðinni til baka af Melanesrifi er tilvalið að taka nokkurra kílómetra sveig í austur að Sjöundá og ganga um grasi grónar rústir þessa sögufræga tvíbýlis. Þarna voru ein frægustu morð Íslandssögunnar framin 1802 sem Gunnar Gunnarsson gerði skil í sögulegri skáldsögu sinni Svartfugli.

Í tengslum við heimsókn á Rauðasand er því tilvalið að lesa þessa frægu skáldsögu, en hún lýsir ekki aðeins morðunum heldur dregur einnig upp mynd af lífi fátæks alþýðufólks sem dró fram lífið í þessari stórkostlegu náttúru, í skugga óréttlætis og mikillar stéttaskiptingar.