Vatn í flöskum, útvarp með langbylgju, sterkt viðgerðarlímband og beinharðir peningar er á meðal þess sem Rauði krossinn á Íslandi beinir til fólks að hafa tiltækt í sérstökum viðlagakassa vegna náttúru- eða veðurhamfara.

Glöggir sjónvarpsáhorfendur sáu auglýsingu frá Rauða krossinum eftir næst síðasta þátt Ófærðar í gærkvöldi. „Ertu klár í þriggja daga vatnsleysi? Rauði krossinn hvetur fólk til að vera viðbúið.“

Auglýsingin er liður í verkefni Rauða krossins sem heitir „3 dagar“. Með heitinu vill Rauði krossinn impra á mikilvægi þess að einstaklingar og fjölskyldur geti verið sjálfum sér nægar í þrjá daga ,eigi sér stað rof á innviðum. Í því getur falist að vegir lokast, rafmagn fari af og svo framvegis.

Um þetta má lesa á vef Rauða krossins. Samtökin hafa staðið fyrir fræðslufundum um allt land, meðal annars í grunnskólum, til að kynna verkefnið og kenna fólki hvernig eigi að undirbúa sig ef hamfarir verða. „Rauði krossinn á Íslandi er mikilvægur hluti af kerfi almannavarna á Íslandi. Landsfélagið leiðir fjöldahjálp og áfallahjálp í kjölfar náttúruhamfara og annarra alvarlegra atburða. Meðal nýlegra atburða sem Rauði krossinn hefur komið að má nefna eldgosin í Eyjafjöllum árið 2010, Suðurlandsskjálftana árið 2008 og jarðelda í Bárðarbungueldstöðinni 2014-2015. Þá bregst félagið við fjölda umfangsminni atburða á hverju ári. Félagið þarf að geta rækt hlutverk sitt í öllum veðrum, hvenær sem er ársins.“

Fram kemur að góður undirbúningur getur skipt sköpum þegar rafmagnslaust verður. Það geti jafnvel bjargað mannslífum. „Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og vita hvernig skuli bregðast við þegar slokknar á öllu, net- og símasamband dettur út eða vegir verða ófærir. Að sama skapi minnkar góður undirbúningur álag á viðbragðsaðilum t.d. björgunarsveitum. Mörg dæmi eru til um að fjölskyldur og einstaklingar hafa verið án rafmangs eða rennandi vatns í fleiri daga og því skiptir öllu máli að vera með viðlagakassa á vísum stað sem og heimilisáætlun til staðar sem heimilisfólk þekkir - það getur jafnvel bjargað mannslífum.

Rauði krossinn talar fyrir því að hvert heimili komi sér upp viðlagakassa, með helstu nauðsynjum. Þar eru hlutir sem fólk gæti þurft að nota í kjölfar hamfara.

Hér fyrir neðan er sá listi:

 • Listi yfir mikilvæg símanúmer - Fjölskyldumeðlimir og viðbragðsaðilar, s.s. 112.
 • Kerti og eldspýtur - Ef rafmagn þrýtur er nauðsynlegt að geta tendrað ljós og kveikt upp í eldunargræjum.
 • Sterkt viðgerðarlímaband - Mjög gagnlegt í minni viðgerðir og skammtímareddingar .
 • Hreinlætisvörur - Tannbursta, bleiur, sápu, dömubindi/túrtappa, svitalyktareyði o.s.frv.
 • Útvarp með langbylgju (upptrekt eða með rafhlöðum) - Þinn besti möguleiki á að fá upplýsingar um ástand ef sambandsleysi á sér stað.
 • Vasaljós með rafhlöðum 
 • Beinharðir peningar - Í sambandsleysi gagnast kort í mesta lagi sem rúðusköfur.
 • Leikföng og spil - Nauðsynlegt fyrir börn jafnt sem fullorðna og fyrirtaks dægrastytting.
 • Vatn á flöskum eða brúsa - Hver einstaklingur notar allt að fjóra lítra á dag.
 • Teppi til að kúra saman í kuldanum - Muna að hafa nóg fyrir alla á heimilinu.
 • Matur með langt geymsluþol (dósamatur, pakkamatur, þurrmeti) - Svo er bara að borða hann í útilegum á sumrin og fylla aftur á með haustinu.
 • Vasahnífur eða fjölnota verkfæri - Nauðsynlegt í minniháttar viðgerðir og skítamix..

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga:

 • Skyndihjálpartaska er alltaf nauðsynleg á hvert heimili. Hana má kaupa hjá Rauða krossinum.
 • Prímus og gaskút er nauðsynlegt að eiga - það er leiðinlegra að borða dósamatinn kaldan. Þá virkar gasgrill líka.
 • Slökkvitæki
 • Hafðu nóg eldsneyti á bílnum ef hættuástand skapast - þannig geturðu hlaðið síma og fylgst með fréttum í útvarpinu ef samband er til staðar.
 • Kynntu þér staðsetningu næstu fjöldahjálparstöðvarHÉR má finna staðsetningar á landinu og hér  má finna heimilisföng.
 • Náðu í skyndihjálparappið á App Store eða Google Play. Þar er einnig kafli um neyðarvarnir.