Kínverskur íbúi Peking á refsingu yfir höfði sér eftir að hann rauf einangrun sem hann sætti vegna gruns um kórónuveirusmit. Afleiðingar sóttvarnarbrotsins voru þær að 5.000 nágrannar mannsins voru sendir í sóttkví.
Útbreiðsla Covid-19 í Kína hefur verið talsverð undanfarna mánuði en þó er farið að hylla undir eðlilegt líf að nýju í fjölmennum borgum á borð við Peking og Sjanghæ. Harðar takmarkanir hafa verið í gildi til að hefta útbreiðslu veirunnar og er fólk sent umsvifalaust í sóttkví ef minnsti grunur vaknar um útsetningu fyrir smiti.
Í umfjöllun Guardian kemur fram að maðurinn hafi greinst með Covid-19 og því hafi heilbrigðisyfirvöld tekið strax í taumana til að forðast mögulegt hópsmit. Tæplega 260 einstaklingum, sem bjuggu í sama fjölbýlishúsi og hann, var gert að fara í sóttkví í sérstakri sóttkvíarmiðstöð á vegum yfirvalda og um fimm þúsund öðrum á nærliggjandi svæði var gert að halda sig heima.
Bent er á það í umfjöllun Guardian að strangar sóttvarnaraðgerðir Kínverja hafi valdið talsverðri óánægju – meðal annars í ljósi efnahagsáhrifa og áhrifa á sálarlíf fólks. En forseti landsins, Xi Jinping, segir aðgerðirnar nauðsynlegar og þær muni halda áfram meðan þörf er á.