Rauði krossinn á Ís­landi hefur að beiðni stjórn­valda opnað fjölda­hjálpar­stöð fyrir um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd. Í til­kynningu kemur fram að það sé gert vegna mikillar fjölgunar á komu flótta­fólks til landsins, meðal annars vegna á­takanna í Úkraínu, sam­hliða skorti á í­búðar­hús­næði fyrir flótta­fólk.

Gert er ráð fyrir að fólk gisti í fjölda­hjálpar­stöðinni í tak­markaðan tíma og fari þaðan í önnur hús­næðis­úr­ræði.

„Þetta er tíma­bundið úr­ræði. Brú í annað úr­ræði á vegum annað hvort Vinnu­mála­stofnunar eða sveitar­fé­laganna,“ segir Atli Viðar Thor­sten­sen sviðs­stjóri al­þjóða­sviðs hjá Rauða krossinum í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann segir þau búist við því að geta hýst á hverjum tíma­punkti 100 til 150 manns í fjölda­hjálpar­stöðinni og að það sé gert ráð fyrir því að þau verði þar í allt að þrjá daga.

Spurður af hverju hann gerir ráð fyrir því að þrír dagar séu nóg miðað við fréttir í síðasta mánuði af neyðar­á­standi í kerfinu og að nánast öll bú­setu­úr­ræði séu full hjá bæði Vinnu­mála­stofnun og sveitar­fé­lögunum segir Atli að stjórn­völd verði að svara því hvort að þessi tíma­lína geti gengið upp.

„Okkar hlut­verki með þessu er að út­vega úr­ræði sem er tíma­bundið. Okkar búnaður í þessari að­stöðu er ekki ætlaður til lengri bú­setu. Þetta eru ein­faldir svefn­bekkir og við höfum verið skýr með það að fólk sé hér að há­marki í þrjá sólar­hringa. Þar af leiðandi er þetta engin lausn heldur tíma­bundið úr­ræði á meðan fólki er fundið annað úr­ræði,“ segir Atli Viðar.

Fólki verður boðið að sofa á beddum í þrjá daga.
Fréttablaðið/Ernir

Sérstök aðstaða fyrir fjölskyldufólk

Fjölda­hjálpar­stöðin verður stað­sett í her­bergjum í skrif­stofu­hús­næði í Borgar­túni. Hús­næðið er á nokkrum hæðum og þykir henta verk­efninu vel. Gert er ráð fyrir sér­stakri að­stöðu fyrir fjöl­skyldu­fólk.

„Stjórn­völd hafa gert sitt til að reyna að finna hús­næði fyrir þann mikla fjölda sem hefur leitað hingað síðustu mánuði, en að verk­efninu þyrftu að koma fleiri sveitar­fé­lög til að ná betur utan um þetta og koma þeim í betri og varan­lega bú­setu á vegum sveitar­fé­lögum,“ segir Atli Viðar.

Hann segir að svona fjöldi hafi ekki komið áður og að sveitar­fé­lög og stofnanir þurfi að takast við þetta saman og að Rauði krossinn vilji sjá fleiri sveitar­fé­lög taka þátt.

Í til­kynningu segir að Rauða krossinn að þau gegni stoð­hlut­verki við stjórn­völd í al­manna­vörnum og hlut­verk fé­lagsins felst meðal annars í opnun og starf­rækslu fjölda­hjálpar­stöðva. Það er því Rauði krossinn sem sér um og rekur fjölda­hjálpar­stöðina í Borgar­túni en í nánu sam­starfi við Vinnu­mála­stofnun, sem þjónustar um­sækj­endur um al­þjóð­lega vernd, sem og fé­lags- og vinnu­markaðs­ráðu­neytið sem fer með mála­flokkinn.

Bjóstu ein­hvern tímann við því að þurfa að opna slíka stöð fyrir flótta­fólk á Ís­landi?

„Þetta er í fyrsta sinn sem við erum virkjuð til þess að opna slíka fjölda­hjálpar­stöð á Ís­landi. Við gerum það oft á hverju ári, en í öðru sam­hengi, í tengslum við annars konar ham­farir,“ segir Atli Viðar og að þau haldi stöðinni opinni eins lengi og þörf krefur.

Fjöldahjálparstöðin er í Borgartúni.
Fréttablaðið/Ernir