Rauði krossinn á Íslandi hefur að beiðni stjórnvalda opnað fjöldahjálparstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í tilkynningu kemur fram að það sé gert vegna mikillar fjölgunar á komu flóttafólks til landsins, meðal annars vegna átakanna í Úkraínu, samhliða skorti á íbúðarhúsnæði fyrir flóttafólk.
Gert er ráð fyrir að fólk gisti í fjöldahjálparstöðinni í takmarkaðan tíma og fari þaðan í önnur húsnæðisúrræði.
„Þetta er tímabundið úrræði. Brú í annað úrræði á vegum annað hvort Vinnumálastofnunar eða sveitarfélaganna,“ segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri alþjóðasviðs hjá Rauða krossinum í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir þau búist við því að geta hýst á hverjum tímapunkti 100 til 150 manns í fjöldahjálparstöðinni og að það sé gert ráð fyrir því að þau verði þar í allt að þrjá daga.
Spurður af hverju hann gerir ráð fyrir því að þrír dagar séu nóg miðað við fréttir í síðasta mánuði af neyðarástandi í kerfinu og að nánast öll búsetuúrræði séu full hjá bæði Vinnumálastofnun og sveitarfélögunum segir Atli að stjórnvöld verði að svara því hvort að þessi tímalína geti gengið upp.
„Okkar hlutverki með þessu er að útvega úrræði sem er tímabundið. Okkar búnaður í þessari aðstöðu er ekki ætlaður til lengri búsetu. Þetta eru einfaldir svefnbekkir og við höfum verið skýr með það að fólk sé hér að hámarki í þrjá sólarhringa. Þar af leiðandi er þetta engin lausn heldur tímabundið úrræði á meðan fólki er fundið annað úrræði,“ segir Atli Viðar.

Sérstök aðstaða fyrir fjölskyldufólk
Fjöldahjálparstöðin verður staðsett í herbergjum í skrifstofuhúsnæði í Borgartúni. Húsnæðið er á nokkrum hæðum og þykir henta verkefninu vel. Gert er ráð fyrir sérstakri aðstöðu fyrir fjölskyldufólk.
„Stjórnvöld hafa gert sitt til að reyna að finna húsnæði fyrir þann mikla fjölda sem hefur leitað hingað síðustu mánuði, en að verkefninu þyrftu að koma fleiri sveitarfélög til að ná betur utan um þetta og koma þeim í betri og varanlega búsetu á vegum sveitarfélögum,“ segir Atli Viðar.
Hann segir að svona fjöldi hafi ekki komið áður og að sveitarfélög og stofnanir þurfi að takast við þetta saman og að Rauði krossinn vilji sjá fleiri sveitarfélög taka þátt.
Í tilkynningu segir að Rauða krossinn að þau gegni stoðhlutverki við stjórnvöld í almannavörnum og hlutverk félagsins felst meðal annars í opnun og starfrækslu fjöldahjálparstöðva. Það er því Rauði krossinn sem sér um og rekur fjöldahjálparstöðina í Borgartúni en í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun, sem þjónustar umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fer með málaflokkinn.
Bjóstu einhvern tímann við því að þurfa að opna slíka stöð fyrir flóttafólk á Íslandi?
„Þetta er í fyrsta sinn sem við erum virkjuð til þess að opna slíka fjöldahjálparstöð á Íslandi. Við gerum það oft á hverju ári, en í öðru samhengi, í tengslum við annars konar hamfarir,“ segir Atli Viðar og að þau haldi stöðinni opinni eins lengi og þörf krefur.
