Rauði krossinn á Íslandi fagnar frumvarpi um afglæpavæðingu fíkniefna. Samtökin vilja hins vegar ganga lengra og telja að löggjöfin eigi einnig að ná til lyfseðilsskyldra lyfja. Um sé að ræða skref í átt að gagnreyndri og mannúðlegri nálgun við vímuefnanotkun og vímuefnavandann með skaðaminnkandi hugmyndafræði að leiðarljósi.
„Hlutverk vímuefnastefnu ætti fyrst og fremst að leggja áherslu á að draga úr skaðlegum og hættulegum afleiðingum vímuefnanotkunar í landinu, með það að markmiði að lágmarka áhættuþætti eins og dauðsföll, ofskammtanir og óafturkræfan skaða af notkun vímuefnavanda,“ segir í umsögn Rauða krossins við frumvarpið.
Hægt að lágmarka hættuna á dauðsföllum
Umrætt frumvarp snýr að afnámi refsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum, en innflutningur útflutningur, sala, skipti, afhending framleiðsla og tilbúningur efna verður áfram refsiverður. Rauði krossinn segir að lagabreytingin muni styðja enn frekar við uppsetningu og þróun skaðaminnkandi þjónustu á borð við Frú Ragnheiði, Konukot, Gistiskýlið og búsetuúrræði fyrir einstaklinga í virkri vímuefnanotkun.

„Mikilvægt er að styrkja lagalega stöðu þessara úrræða og tryggja að öll úrræði sem starfa með einstaklingum sem nota vímuefni í æð geti veitt skjólstæðingum sínum öruggt rými innanhúss til að nota vímuefni í æð til að lágmarka hættuna á dauðsföllum vegna ofskömmtunar,“ segir enn fremur.
Þá segir að með lagabreytingum muni aðgengi jaðarsettra einstaklinga, sérstaklega þeirra sem glíma við erfiðan vímuefnavanda, að heilbrigðisþjónustu, félagslegri þjónustu og viðbragðsþjónustu aukast til muna.
Fólk veigri sér við að kalla eftir aðstoð
„Dæmi eru um að einstaklingar sem glíma við vímuefnavanda veigri sér við að hringja eftir bráðaaðstoð eða leita sér aðstoðar af ótta við að lögregla fjarlægi neysluskammta þeirra og/eða vera handtekin vegna annars ólögmæts athæfis. Það getur átt við jafnvel þó um bráðatilfelli sé að ræða eins og ofskömmtun á vímuefnum, heimilisofbeldi eða annarskonar ofbeldi. Það að tryggja að ekki verði hægt að fjarlægja neysluskammta af fólki er mikið öryggismál fyrir jaðarsetta einstaklinga og auðveldar einnig starfsfólki á vettvangi að þjónusta og styðja við einstaklinga sem glíma við vímuefnavanda.“
Þá sé mikilvægt að breytingin nái einnig til lyfja sem heimiluð eru í læknisfræðilegum og vísindalegum tilgangi.
„Reynsla og gögn úr skaðaminnkunarverkefnum Rauða krossins sýna að jaðarsettir einstaklingar eru oftar en ekki háðir notkun lyfseðilsskyldra lyfja í æð. Það er reynsla Rauða krossins að lögreglan geri lyfseðilsskyld lyf upptæk til jafns við ólögleg vímuefni. Einstaklingar sem leita til skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins lýsa því að lyfseðilsskyld lyf séu gerð upptæk vegna gruns lögreglunnar um að mögulega hafi lyfseðilsskylda lyfið verið keypt ólöglega en sé ekki uppáskrifað fyrir einstaklinginn sem hefur lyfið undir höndum.“