Félagsmálaráðuneytið hefur gert samning við Rauða krossinn á Íslandi um að aðstoða þá Afgani sem búa á Íslandi við að fá fjölskyldu sína frá Afganistan til Íslands. Mun ráðuneytið fjármagna stöðugildi til að hjálpa þeim við að fylla út umsóknir um fjölskyldusameiningar, ferli sem er talsvert flókið.

Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs, fagnar samningnum.

„Það skiptir miklu máli að halda vel utan um þetta. Við munum vinna þetta með stjórnvöldum og þeim Afgönum sem um ræðir þannig að hægt verði að tryggja sem skjótasta og réttlátasta málsmeðferð við þessar umsóknir,“ segir hann.

„Í framhaldinu verður hægt að koma ættingjum sem búa við erfiðar og jafnvel lífshættulegar aðstæður í heimalandinu til Íslands.“

Íslensk stjórnvöld hafa verið í sambandi við 25 til 30 einstaklinga sem eru staddir í Afganistan. Á næstunni er von á um 30 Afgönum sem falla undir þá hópa sem íslensk stjórnvöld ákváðu að aðstoða sérstaklega. Heildarfjöldinn er því um 60, en ekki 90 eins og fram kom í minnisblaði forsætisráðuneytisins í síðustu viku.