Veður­stofa Ís­lands hefur sett á rauða veður­við­vörun á morgun vegna veðurs á Austur­landi. Víða um land er búist við slæmu veðri á næsta sólar­hring, en verst á það að vera á sunnan­verður Aust­fjörðum, að sögn veður­fræðings á Veður­stofunni.

„Þetta verður alveg mjög slæmt, veðrið á sunnan­verðum Aust­fjörðum sér­stak­lega en slæmt á öllum Aust­fjörðum,“ segir Ei­ríkur Örn Jóhannes­son, veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands.

Appel­sínu­gul veður­við­vörun hefur verið gefin út á Norður­landi eystra, Austur­landi og Suð­austur­landi. „Veðrið verður kannski verst á Suð­austur­landi af þessum þremur appel­sínu­gulu svæðum,“ segir Ei­ríkur og bætir við að Aust­firðir skeri sig út, en þar er spáð 25 til 33 metrum á sekúndu. „Þá er maður kominn í ofsa­veður.“

Þá mælir Ei­ríkur með því að fólk haldi sig inni í svona veðri. „Það er ekkert ferða­veður. Steinar og grjót er farið að fjúka og það getur verið hættu­legt. Svo er það þetta hefð­bundna, það þarf að tryggja lausa­muni, allt sem er laust fýkur í svona veðri.“ Hann bætir við að það sama eigi við Austur­land og Suður­land.

„Þegar veðrið er orðið svona slæmt ætti fólk að sleppa öllum ó­þarfa ferða­lögum, sér­stak­lega í rauðri við­vörun,“ segir Ei­ríkur.

Þriðja rauða við­vörunin

„Þetta er í þriðja skiptið sem við setjum út rauða við­vörun, þriðja veðrið. Það hefur farið á fjögur spá­svæði í tveimur veðrum. Þetta er þriðja veðrið þar sem sett er út rauð við­vörun. Það er orðið mjög slæmt þegar það kemur rauð,“ segir Ei­ríkur.

Lýsa yfir hættustigi á Austurlandi

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi lýst yfir hættustigi Almannavarna vegna veðurs, á morgun sunnudaginn 25. september. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

Fyrr í dag var óvissustigi lýst yfir á svæðinu en því hefur nú verið breytt í hættustig.

„Fólk sem hugar að ferðalögum á þessum landshlutum er hvatt til þess að fylgjast vel með veðurspám á www.vedur.is og upplýsingar um ástand á vegum á www.vegagerdin.is“ segir í tilkynningunni.

Fréttin var uppfærð kl. 18:06.