Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur svarað mótmælum sem komu upp í erindi hennar á jafnréttiþingi í dag, þar sem hópur kvenna gaf henni rautt spjald og gekk svo út. Hún segir rauð spjöld einungis æsa sig upp.

Konurnar, sem eru af erlendum uppruna, mættu með borða sem á stóð: „Við erum að dæma þennan leik og þú færð rauða spjaldið“. Þær mótmæltu framferði Sólveigar sem formaður Eflingar.

„Fulltrúar skrifstofuvirkisins og háskólamenntaðar millistéttar voru mættar galvaskar á Jafnréttisþing þar sem að mér hafi náðarsamlegast verið boðið að tala fyrir hönd arðrændra láglaunakvenna höfuðborgarsvæðisins, til að sýna mér það sem kallað er Rauða spjaldið.“ segir í færslu sem birtist á Facebook-síðu Sólveigar.

Þar fjallar hún á léttari nótunum um anstöðu sína gagnvart íþróttum. Hún segir að rauð spjöld muni, ef eitthvað, einungis æsa sig upp.„Ef að fulltrúar skrifstofuvirkisins vissu eitthvað um mig hefðu þær kannski áttað sig á því að svona íþrótta-vísanir eins og Rautt spjald gera nákvæmlega ekkert annað en að æsa mig upp og gera mig enn forhertari.“ segir Sólveig.

„Því er það svo að þegar að rauðu klæði er veifað framan í mig vaknar engin blygðunarkennd eða tilfinning um að ég hafi gert eitthvað rangt; nei, samstundis kvikna eldheitar baráttu-kenndir hinnar arðrændu verkakonu, og ég fyllist enn meiri og dýpri löngun til að rísa upp ásamt félögum mínum í stétt verka og láglaunafólks, sækja fram og vinna stóra og magnaða sigra á þeim eina keppnis-velli sem ég viðurkenni; keppnis-velli þeim þar sem að vinnuaflið mætir arðræningjunum. Áfram vinnuaflið!“ heldur hún áfram.

Sólveig setur út á að konurnar hafi farið úr salnum, segir að þær hafi ekki haft áhuga á að ræða stöðu kúgaðra kvenna, þar sem hlutskipti þess hóps skipti þær ekki máli

„En það er allt í lagi; þær skipta mig og félaga mínu engu máli. Við erum á leið á völlinn, mörg, sameinuð og sterk. Og þau tilþrif sem við munum sína þar verða þannig að engum þarf að leiðast. Ég lofa því.“ eru lokorð færslu Sólveigar.