Breski auðkýfingurinn Sir Jim Ratcliffe hefur gert samkomulag við Hafrannsóknarstofnun um rannsóknaráætlun til verndar íslenska laxastofninum. Samkomulagið verður undirritað í húsakynnum Hafrannsóknarstofnunar nú síðdegis.

Ratcliffe fjármagnar rannsóknaráætlunina sem verður unnin í samstarfi við lífvísindadeild Imperial College í London.

Fram kom á blaðamannafundi nú á fjórða tímanum að áætlunin er hluti af sjálfbærri langtímaverndaráætlun sem miðar að því að laxveiðar á Íslandi verði áfram þær bestu og sjálfbærustu í heimi.

Nýja rannsóknaráætlunin styður við vernd Norður-Atlantshafslaxins í ám Norðausturlands um leið og gripið er til aðgerða til að vernda nærumhverfi ánna og viðkvæmt vistkerfi svæðisins í heild.

„Við erum mjög ánægð með þetta samkomulag í tengslum við laxinn á Norðausturlandi. Verið er að fjármagna doktorsnema í rannsóknum. Í þessu verkefni falla áhugasvið okkar saman,“ segir Sigurður Guðjónsson hjá Hafrannsóknarstofnun. Stefnt er að því að annar doktorsneminn verði við Háskóla Íslands og hinn við Imperial College London.

Peter Willams og Sigurður Guðjónsson við undirritunina í dag.
Fréttablaðið/Valli

„Við höfum stækkað verkefnin til verndar laxinum á Norðausturlandi til þess að vernda einstætt umhverfi hans. Með aðstoð Sir Jim Ratcliffe og sveitarfélaga á svæðinu getum við á sjálfbæran hátt verndað svæðið og árnar til þess að Norður-Atlantshafslaxinn þrífist sem best á svæðinu,“ segir Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri veiðifélagsins Strengs. „Við hófum samstarfið við Jim fyrir rúmlega ári síðan. Okkar verkefni er að skilja landið eftir í betra ástandi fyrir komandi kynslóðir en við tókum við því.“

„Við erum að búa Norður-Atlantshafslaxinum friðland á Norðausturlandi Íslands. Lífsskilyrði laxins á Norðausturlandi verða bara bætt með sjálfbærri fjárfestingu í jörðum og ám á þessu einstæða svæði,“ segir Peter S. Williams, tæknistjóri INEOS Group.

Stækkun hrygningar- og uppvaxtarsvæða laxins með byggingu nýrra laxastiga í Hafralónsá, Hofsá, og Miðfjarðará í Vopnafirði, er jafnframt hluti af langtímaáætlunum um að auka viðgang íslenska laxins. Framkvæmdunum miðar áfram með aðstoð fjárfestingar af hálfu Ratcliffe og Strengs.

Í Miðfjarðará var í fyrra lokið við og opnaður laxastigi. Þar hefur lax þegar náð bólfestu á nýjum svæðum í efri hluta árinnar, sem bætir við 4,5 kílómetrum af nýju búsvæði fyrir unglaxinn.

„Aðkoma Sir Jims að vernduninni skiptir miklu máli þegar kemur að því að viðhalda uppvaxtarstöðvum Norður-Atlantshafslaxins á Norðausturlandi. Með náinni samvinnu við bændur og sveitarfélög verður til sjálfbær starfsemi í sátt við náttúruna, sem kemur bæði samfélagi og náttúrufari á svæðinu til góða, um leið og viðhaldið er stöðu svæðisins sem fyrsta flokks á heimsvísu fyrir stangveiðar,“ segir Gísli.

Til viðbótar við bein fjárframlög frá Ratcliffe, rennur nú allur hagnaður af starfsemi Strengs aftur til verndarstarfs laxa á Norðausturlandi. Með verkefnunum er haldið áfram að vernda árnar og stækka uppvaxtarsvæði þeirra, um leið og unnið er með bændum og sveitarfélögum að vernd búsvæðisins.

Kynningarmyndband frá Streng: