Við kynntumst í gegnum sameiginlega vini og uppistandið,“ segir Snjólaug þegar blaðamaður spyr hana út í kynni þeirra.

„Við höfðum oft talað um að gera eitthvert grín saman en það fannst aldrei tími – svona eins og þegar fólk segir „tökum kaffi bráðlega“ og svo talast það aldrei aftur við,“ segir hún í léttum tón.

„En allt í einu kom einhver óskiljanlegur drifkraftur yfir okkur og við höfðum samband við Bæjarbíó og bara kýldum þetta í gegn. Held við höfum verið soldið æstar eftir allt slenið í Covid, það hefur hjálpað.“

„Við höfðum oft talað um að gera eitthvert grín saman en það fannst aldrei tími – svona eins og þegar fólk segir „tökum kaffi bráðlega“ og svo talast það aldrei aftur við."

Þó að þær Snjólaug og Saga eigi grínið sameiginlegt eru aðstæður þeirra ólíkar og er það meðal umfjöllunarefna sýningarinnar, önnur ráðsett og hin í eilífri leit að ástinni.

„Saga er með rassamæla á heilanum og talar soldið um þá. Svo gerir hún grín að eiginmanni sínum og foreldrum, líkamsræktardellu Íslendinga og Tenerife-ferðalögum og alls konar annarri þvælu,“ segir Snjólaug.

„Ég tala um dapurleg ástarmál mín og slæmar stefnumótasögur, svo á ég sjötíu systkini og flókna samsetta fjölskyldu og geri soldið grín að stjúptengslum og flækjum tengdum þeim,“ segir hún og bætir við að í sameiningu nái þær að dekka íslenskt samfélag ágætlega.

Snjólaug gerir grín af dapurlegum ástarmálum sínum en einnig stjúpfjölskyldum enda segist hún sjálf eiga 70 stjúpsystkini. Mynd/aðsend

Ég er skíthrædd við hana


Stöllurnar skrifuðu hvor í sínu lagi og eru hvor með sitt uppistandið.

„Svo hittumst við nokkrum sinnum og fengum saman taugaáfall yfir því að vera mögulega ekkert fyndnar – en peppuðum hvor aðra upp úr þeirri holu fljótt.“

Snjólaug segir viðbrögðin hafa verið virkilega góð.

„Fólk hlær og hlær og slær sér á lær – við erum í skýjunum eftir hverja sýningu og bara frekar góðar með okkur.“

Þegar hún er svo spurð um mögulegar uppákomur í ferlinu má greina örlítinn alvarleika í Snjólaugu:

„Saga er í mjög fallegum grænum silkikjól á sýningunum sem hún er agalega stressuð yfir að krumpa, hún fer í hanska og gufar hann fyrir hverja sýningu – svo sest hún ekki niður í honum og það má bara helst ekki líta í áttina að henni þegar hún er í kjólnum. Fólk gerir sér engan veginn grein fyrir því hversu mikil díva hún er. Ég er skíthrædd við hana.“

„Fólk gerir sér engan veginn grein fyrir því hversu mikil díva hún er. Ég er skíthrædd við hana.“

Samkvæmt tix.is eru einhver sæti laus á sýninguna í kvöld sem er sú síðasta í bili en aðspurðar segja þær þó mögulegt að sýningin verði aftur tekin upp í nóvember.