Viðskiptavinur í Krónunni réðst á starfsmann, lamdi hann, hrinti honum og kallaði niðrandi orðum um kynþátt hans. Árdís Pétursdóttir, eiginkona Destiny, mannsins sem ráðist var á, sagði frá atvikinu í færslu sem hún deildi á Facebook.

Kúnninn með kynþáttaníð

„Hann býður kúnna góðan daginn, og hvort hann geti aðstoðað. Kúnninn snýr sér að honum og segir með reiði „ert ÞÚ að tala við mig“ og Destiny segir „já, get ég aðstoðað?“ (Destiny talar Íslensku við kúnnann). Þessi maður snýr sér svo að Destiny, kallar hann negra, og byrjar að garga á hann svo glymur um alla verslun. Hann lemur í bringuna á Destiny með báðum höndum, svo hann meiðir sig, kallar hann African monkey, mongoloid, negra, nigger og fleira,“ skrifar Árdís á Facebook.

Árdís greinir frá því að kúnninn hafi hrint eiginmanni hennar og spurt hann hvort hann vildi berjast við sig. Hann hafi þrýst sér upp að andliti Destiny og öskrað á hann.

Destiny var þögull allan tímann og svaraði engu og voru samstarfsfélagar hans snöggir á staðinn og gengu á milli þeirra. Kúnnar í versluninni urðu vitni að atvikinu.

Hringdu ekki strax í lögreglu

Mikil umræða hefur farið af stað í athugasemdunum við færsluna. Margir velta fyrir sér hvers vegna samstarfsmenn og stjórnendur verslunar hafi ekki hringt strax í lögreglu.

„Destiny er skiljanlega í sjokki, sár og reiður, og hefur hvergi að leita með þetta mál strax vegna þess að til að kæra svona árás þarf að hringja strax í lögreglu, en það var ekki gert heldur hringdi ég í lögreglu. Þar er mér sagt að fyrst enginn hringdi í lögregluna þarf að panta tíma hjá lögreglunni og bíða í nokkra daga til að fá tíma,“ skrifar Árdís.