Vala Mörk Jóhannsdóttir og Guðjón Svansson eru Mosfellingar og reka æfingastöðina Kettlebells Iceland úr bílskúr heimilisins í Mosfellsbæ. Heimilið stendur rétt hjá Reykjalundi en Vala er menntaður iðjuþjálfi og hefur starfað bæði í Danmörku og á Íslandi á Reykjalundi, sem slíkur. Núna vinnur hún frekar með fyrirbyggjandi nálgun.

Guðjón er samskiptafræðingur og hefur m.a. unnið hjá Íslandsstofu, Rauða Krossinum og Hagvangi. Saman eiga þau hjónin fjóra syni á aldrinum 8-24 ára.

„Við fórum fyrir um áratug með þrjá elstu drengina í ársreisu og ferðuðumst með þá um alla Suður- Ameríku. Ferðalagið reyndist fjölskyldunni vel og nú vildum við gera svipað með þeim yngsta sem vildi auðvitað líka upplifa í reisu eins og bræður hans. En við vildum líka fara því það er svo gott að kúpla sig um tíma úr íslensku samfélagi. Hér er svo mikill hraði og spenna, svo mikið í gangi og samverustundir fjölskyldunnar færri og færri,“ segir Vala.

Þau ákváðu að ferðin skyldi verða eins konar rannsóknarleiðangur um hið góða líf. Áfangastaðirnir urðu svokölluð Blue Zones, þau fimm svæði í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa fara saman. Þau einsettu sér að dvelja með heimafólki og læra af þeim hvernig hægt væri að draga úr álagi og bæta heilsuna.

„Svæðin sem tilheyra Blue Zones- svæðunum eru Loma Linda í Bandaríkjunum, Nicoya-skaginn á Kosta Ríka og eyjurnar Okinawa í Japan, Ikaria á Grikklandi og Sardinía á Ítalíu,“ segir Vala. „Við vildum í raun komast að leyndarmálum þeirra sem búa á þessum svæðum og miðla þekkingunni áfram. Það höfum við nú þegar gert og erum með fyrirlestra í fyrirtækjum og vinnustofur þar sem við rýnum í þann lífstíl og þau gildi sem einkenna líf fólks á þessum svæðum og hvernig má yfirfæra þau á líf okkar. Við segjum ferðasöguna, drögum fram það sem við lærðum á hverjum stað og vinnum svo með styrkleika fólks og tækifæri í umhverfi þess. Hjálpum því að komast að eigin gildum og hvernig þau geta lifað betur í samræmi við þau, þannig að betri heilsa og vellíðan verði útkoman,“ útskýrir Vala.

Snorri, sonur Völu með tveimur vinkonum í Loma Linda.

Hún bendir á að vissulega búi Íslendingar að langlífi. „En meðalævi heilbrigðs lífs er lægri. Og það er nokkuð sem við viljum breyta því við sjáum eftir ferðalagið fjölmarga möguleika.“

Vala segir svæðin fimm ólík. „Í Loma Linda í Bandaríkjunum sem er um klukkutíma frá Los Angeles er samfélag Sjöunda dags aðventista sem líta á líkamann sem musteri sem þau eiga að fara vel með. Þau halda hvíldardaginn, Sabbat, heilagan á laugardögum og í heilan sólarhring láta þau ekkert trufla sig heldur huga að sjálfum sér, hitta vini og fjölskyldu og hafa það notalegt. Þau sinna ekki heimilisstörfum nema því allra nauðsynlegasta eða vinnu, lesa ekki undir próf og svo framvegis. Það sem við tókum með okkur í veganesti frá Loma Linda er mikilvægi hvíldar,“ segir Vala frá.

Guðjón og vinur í Kosta Ríka.

Þaðan lá leið fjölskyldunnar til Kosta Ríka. „Þar bjuggum við meðal annars inni á góðri fjölskyldu. Strákarnir fengu svefnherbergi við hliðina á gömlu hjónunum og við Gaui í garðhúsi í garðinum.

Við tókum þátt í lífi þeirra. Fjölskyldufaðirinn hugsaði mikið um aðra. Hann var alltaf að, sendi matarkörfur til krakkanna sinna sem voru í háskóla í San Jose, hitti foreldra sína og gamla frænku. Tengslin á milli fólks skipta miklu máli. Að vera til staðar og vita hvað er að gerast í lífi fólks. Þetta stóð upp úr í Kosta Ríka.“

Eftir dvöl í Kosta Ríka lagði fjölskyldan í ferðalag til Japan.

„Okinawa er falleg eyja og þar hafði fólk sterkan tilgang. Það bar ríka virðingu fyrir því starfi sem það sinnti. Sama hvað það var. Afgreiðslustarf, vegavinna eða að stýra umferð á fjölfarinni götu. Hvert einasta starf var álitið mikilvægt og virðingin gagnkvæm. Þetta fannst okkur áhugavert enda á atvinna ekki bara að vera til þess að greiða reikninga. Að finna að lífið hafi tilgang og að þú skiptir máli er mikilvægt.“

Vala með Snorra syni sínum í fjöllunum í Ikaríu.

Íslensku fjölskyldunni fannst einnig mjög áhugavert að heimsækja Ikaríu, pínulitla gríska eyju þar sem tíminn virðist standa í stað. „Þar virðist ekki skipta máli hvort eitthvað tiltekið verk sé unnið í dag eða á morgun. Þar er enginn asi og fólk vinnur hægt en örugglega að verkum sínum. Ég get nefnt dæmi um það hvernig fólk á eyjunni byggir sér hús. Úti um alla eyjuna má sjá hálfbyggð hús, ástæðan er sú að fólk tekur sér mörg ár í að byggja. Það er enginn að fara fram úr sér eins og við eigum til hér heima.“

Ítalska eyjan Sardinía var sú síðasta sem fjölskyldan dvaldi á. Hún er önnur stærsta eyja Miðjarðarhafsins á eftir Sikiley. „Við dvöldum mikið í Cagliari sem var kosin heilsuborg Evrópu fyrir fáeinum árum siðan. Eyjan er þannig uppbyggð að möguleikar fólks á hreyfingu og samveru eru mjög miklir. Gleði borgarbúa var áberandi mikil og stóð uppúr. Íbúar komu saman á torgum þar sem þeir sátu lengi og spjölluðu, lífsviðhorf þeirra var smitandi. Að hafa gaman af lífinu er það sem samfélag þeirra snýst um.“

Þau komu heim til Íslands í sumarbyrjun. Og að sjálfsögðu voru það viðbrigði.

„Asinn er svo mikill, við þurfum að hægja á okkur. Við þurfum að finna okkur leiðir til þess að búa í samfélagi þar sem við getum hreyft okkur en verið örugg. Þú sendir til dæmis ekki barnið þitt gangandi eða á hjóli í skólann ef það þarf að fara yfir stórar umferðargötur. Þá ertu kominn í skutlið og möguleikarnir á hreyfingu stórminnka. Þetta er bara lítið dæmi og ég held að fólk sé að átta sig á því að þetta skiptir miklu máli fyrir lífshamingju og góða heilsu. Að samfélagið styðji við íbúa sína með því að laga umhverfið að góðum lífsháttum. Mér fannst það líka góðs viti þegar ríkisstjórnin efndi til samstarfs við Nýja Sjáland og Skotland um áherslur við uppbyggingu velsældarhagkerfa. Við getum breytt lífi okkar ef við vitum hverju við viljum breyta og hvernig samfélagi við viljum búa í.“

„Við þurfum að finna okkur leiðir til þess að búa í samfélagi þar sem við getum hreyft okkur en verið örugg.“
Anton