Líkamsræktarstöðvar landsins hafa nú verið lokaðar í á fjórða mánuð síðan í mars og alls óvíst hvort þeim verði gert heimilt að opna þann 2. desember næstkomandi þegar nýjar sóttvarnareglur taka gildi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafði boðað vissar afléttingar í þeim tillögum sem hann hafði þegar lagt fram til heilbrigðisráðherra en í ljósi aukins smits í samfélagsleginu myndi hann endurskoða tillögurnar.

Elín Jónsdóttir, einn af eigendum heilsu- og líkamsræktarstöðvarinnar Grandi101, segir að forsvarsmenn minni líkamsræktarstöðva séu orðnir langþreyttir á samskiptaleysi við yfirvöld.

„Það sem okkur svíður mest er að við fáum ekki haldbær rök fyrir þessum íþyngjandi ákvörðunum um að við þurfum að loka. Það er ekki horft til aðstæðna á hverri stöð fyrir sig og engin samskipti eru milli rekstraraðila og yfirvalda. Við fáum bara upplýsingarnar úr fjölmiðlum,“ segir Elín.

Hún segir mörg dæmi þess að reglur yfirvalda haldi ekki vatni og beri þess merki að þær séu ekki vel ígrundaðar.

„Besta dæmið er að öllum líkamsræktarstöðvum var gert að loka eftir hópsmitið stóra í hnefaleikafélagi á höfuðborgarsvæðinu. Félagið sjálft var þó skilgreint sem íþróttafélag og hefði getað haldið starfseminni áfram að óbreyttu ef forsvarsmennirnir hefðu ekki ákveðið sjálfir að loka,“ segir Elín. Þá séu dæmi þess að líkamsræktarstöðvar séu lokaðar en í sama húsi séu hóptímar sjúkraþjálfara sem séu í lagi.

Hún segir að minni líkamsræktarstöðvar hafi passað sóttvarnir afar vel og samkvæmt hennar bestu vitund sé ekkert hópsmit hægt að rekja til slíkra stöðva.

„Það voru dæmi þess að smitaðir einstaklingar mættu óafvitandi á æfingar en smituðu engan því svo vel var hugað að sótthreinsun og fjarlægð milli þeirra sem æfðu,“ segir Elín.

Róðravélarnar fá ekki að þjarka út Íslendingum þessa dagana.
fréttablaðið/stefán

Hún segir að gerðar séu mun meiri sóttvarnakröfur til líkamsræktarstöðva en til annarra fyrirtækja þar sem hópamyndun á sér stað.

„Margar líkamsræktarstöðvar, sérstaklega þær minni, hafa getu til passa upp á að ítrustu sóttvarna sé gætt en þrátt fyrir það hafa allar stöðvar verið settar í lás. Þá eru útiæfingar á vegum stöðvanna einnig bannaðar,“ segir Elín.

Hún bendir á að undanfarnar vikur hafi birst viðamiklar rannsóknir erlendis þar sem niðurstöðurnar voru á þá leið að sáralitlar líkur væru á að smitast af COVID-19 á líkamsræktarstöðvum. Annars vegar var um að ræða greiningu gagna frá 62 milljónum líkamsræktarheimsókna í 14 Evrópulöndum sem bentu til þess að 487 hefðu smitast í öllum þessum gríðarlega fjölda heimsókna.

Hins vegar var um að ræða nýlega, norska rannsókn þar sem fylgst var með tveimur tæplega 1.900 manna hópum í tvær vikur, annar hópurinn stundaði æfingar í fimm líkamsræktarstöðvum í Osló en hinn ekki. „Niðurstaðan var eitt smit í æfingahópnum sem rekja mátti til vinnustaðar þess smitaða,“ segir Elín.

Hún segir að erlendis, meðal annars í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Hollandi, taki stjórnvöld tillit til mikilvægis hreyfingar fyrir líkamlega og ekki síður andlega heilsu.

„Í þessum löndum eru stöðvarnar opnar. Það er mjög auðvelt að segja við fólk að fara bara út í göngutúr og nýta náttúruna en það er einfaldlega ekki hið sama og að mæta á æfingar. Margir þurfa á hvatningu þjálfara að halda og ekki síður að upplifa félagsskapinn þegar margir eru einangraðir og að upplifa erfiða tíma. Markviss hreyfing stuðlar að betri líkamlegri og andlegri heilsu og það er sjónarmið sem stjórnvöld ættu að taka tillit til,“ segir Elín.