Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir skýrslu Ríkisendurskoðunar vel unna og mikilvægt plagg. Í henni komi fram efnislegir annmarkar við framkvæmd á sölu Íslandsbanka sem sé það sem þurfi að takast á við.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sakaði Katrínu um að fórna prinsippunum.

„Í allri þessari umræðu hef ég lagt áherslu á gagnsæi og að allt sé uppi á borðum,“ segir Katrín. Bersýnilega þurfi að endurskoða fyrirkomulagið. Vegna gagnrýni Kristrúnar segir forsætisráðherra: „Ég veit ekki hvaðan formaður Samfylkingar hefur þá kúnstugu túlkun að ég telji málið snúast um hagkvæmni í ríkisrekstri. Því miður hefur ýmsu verið haldið fram í þessari umræðu sem stenst enga skoðun."

Hvað varðar umræðu um skipun rannsóknarnefndar telur Katrín hana ótímabæra. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé að hefja vinnu við að fara yfir efni skýrslunnar og kalla til sín gesti. Hluti framkvæmdarinnar er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu. Mikilvægt sé að bíða eftir þeim niðurstöðum.