Alma D. Möller, land­læknir, sagði á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag að rann­sókn varðandi dauðs­föll sem til­kynntu voru til Lyfja­stofnunar í kjöl­far bólu­setningar gegn CO­VID-19 sé þrí­þætt. Hún sagði að þrátt fyrir að það teljist ekki lík­legt að tengsl séu á milli séu allar til­kynningar teknar al­var­lega.

Í fyrsta lagi sé um að ræða rann­sókn á vegum land­læknis þar sem farið er yfir sjúkra­sögu ein­stak­linga. Tveir sér­fræðingar í öldrunar­lækningum í sam­ráði við lækna ein­stak­linganna munu leggja mat á að hvort tengsl séu á milli bólu­setningar og and­láts eða hvort það tengist öðrum bráðum veikindum. Þá er í öðru lagi verið að kanna hvort and­lát séu fleiri meðal aldraðra á þessum tíma árs en Alma sagði þó ekkert benda til þess.

Í þriðja lagi hefur Lyfja­stofnun í sam­ráði við sótt­varna­lækni sent fyrir­spurnir til Lyfja­stofnunar Evrópu og til annarra Norður­landa um and­lát þar og sagði Alma að þar væru ein­stök til­vik sem séu talin tengjast undir­liggjandi sjúk­dómum.

Alma talaði á fundinum einnig um að mikið álag sé á Land­spítala þrátt fyrir að bæði al­mennar pestir og far­aldurinn séu í lág­marki og hvatti fólk til að gæta enn vel að smit­vörnum, nota grímur og forðast marg­menni.

„Megum alls ekki sofna á verðinum,“ sagði Alma að lokum.

Tilkynnt hefur verið um sex tilvik um mögulega alvarlega aukaverkun við bóluefni Pfizer gegn COVID-19.

Alls greindust 3 með kórónu­veiruna innan­lands í gær. Það er sami fjöldi og greindist í fyrra­dag. Af þeim þremur sem greindust í gær voru allir í sótt­kví. Alls greindust 17 á landa­mærunum. Sam­tals er því um að ræða 20 smit sem greindust í gær.

1.200 skammtar frá Moderna

Um 1.200 skammtar af bólu­efni Moderna eru væntan­legir til landsins á morgun. Þessir skammtar munu fara í að klára að bólu­setja fram­línu­starfs­menn, einkum á höfuð­borgar­svæðinu. Þetta kom meðal annars fram í máli Þór­ólfs Guðna­sonar, sótt­varna­læknis, á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í há­deginu.