Alma D. Möller, landlæknir, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að rannsókn varðandi dauðsföll sem tilkynntu voru til Lyfjastofnunar í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19 sé þríþætt. Hún sagði að þrátt fyrir að það teljist ekki líklegt að tengsl séu á milli séu allar tilkynningar teknar alvarlega.
Í fyrsta lagi sé um að ræða rannsókn á vegum landlæknis þar sem farið er yfir sjúkrasögu einstaklinga. Tveir sérfræðingar í öldrunarlækningum í samráði við lækna einstaklinganna munu leggja mat á að hvort tengsl séu á milli bólusetningar og andláts eða hvort það tengist öðrum bráðum veikindum. Þá er í öðru lagi verið að kanna hvort andlát séu fleiri meðal aldraðra á þessum tíma árs en Alma sagði þó ekkert benda til þess.
Í þriðja lagi hefur Lyfjastofnun í samráði við sóttvarnalækni sent fyrirspurnir til Lyfjastofnunar Evrópu og til annarra Norðurlanda um andlát þar og sagði Alma að þar væru einstök tilvik sem séu talin tengjast undirliggjandi sjúkdómum.
Alma talaði á fundinum einnig um að mikið álag sé á Landspítala þrátt fyrir að bæði almennar pestir og faraldurinn séu í lágmarki og hvatti fólk til að gæta enn vel að smitvörnum, nota grímur og forðast margmenni.
„Megum alls ekki sofna á verðinum,“ sagði Alma að lokum.
Tilkynnt hefur verið um sex tilvik um mögulega alvarlega aukaverkun við bóluefni Pfizer gegn COVID-19.
Alls greindust 3 með kórónuveiruna innanlands í gær. Það er sami fjöldi og greindist í fyrradag. Af þeim þremur sem greindust í gær voru allir í sóttkví. Alls greindust 17 á landamærunum. Samtals er því um að ræða 20 smit sem greindust í gær.
1.200 skammtar frá Moderna
Um 1.200 skammtar af bóluefni Moderna eru væntanlegir til landsins á morgun. Þessir skammtar munu fara í að klára að bólusetja framlínustarfsmenn, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom meðal annars fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.