Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir að rannsókn standi yfir á banaslysinu sem átti sér stað í Þrengslum aðfaranótt miðvikudags.

Þetta staðfesti Oddur í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag. Í gær auglýsti lögreglan eftir vitnum sem gætu aðstoðað rannsóknina.

Íslenskur maður á sextugsaldri fannst látinn skammt frá jarðýtu sem virðist hafa farið fram af fjallsbrún.

Tildrög slyssins, sem talið er hafa átt sér stað á tímabilinu eftir klukkan 23:00 og til morguns, eru til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Jarðýta sem verið var að nota við að losa efni og ýta fram af fjallsbrúninni hafði farið fram af brúninni og ofan í námuna.