Rannsókn á andlátinu sem varð í Sundhöll Reykjavíkur þann 21. janúar síðastliðinn miðar vel að sögn Guðmundar Páls Jónssonar, lögreglufulltrúa hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Rannsóknin er á lokametrunum en beðið er eftir endanlegum niðurstöðum úr krufningu og gögnum frá tæknideild lögreglu sem hefur starfað á vettvangi.

Guðmundur Páll segist ekki getað gefið upp nákvæmlega hvenær rannsókn málsins lýkur en að það styttist í það.

31 árs gamall karlmaður lést í innilaug Sundhallarinnar í Reykjavík þann 21. janúar eftir að hafa legið í 6 mínútur í kafi á botni sundlaugarinnar. Tveir laugarverðir voru að störfum í Sundhöllinni þegar maðurinn lést. Annar þeirra var í sal Sundhallarinnar, þar sem innilaugin er staðsett og hinn í turni laugarvarðar þar sem yfirsýn er yfir útilaug og aðgengi er að öryggismyndavélum.

Málið hefur verið í rannsókn hjá miðlægri rannsóknardeild og tæknideild lögreglunnar.